Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra segir alla sem vinna inni á vinnusvæði HS Orku í Svartsengi með tetra-talstöðvar og öryggisstjóri starfandi á svæðinu. Einnig séu tæki og rýmingaráætlanir til að tryggja að hægt sé að koma öllum út af svæðinu hratt og örugglega. Björgunarsveitarfólks sé svo til taks.
„Fyrst og fremst eru þetta bara rýmingaráætlanir sem við erum búin að búa til fyrir verktakana.“
Spurður hvort hægt sé að koma upp svipuðu fyrirkomulagi hvað varðar fjölmiðla segir Víðir að ákall hafi verið sent út í gær á björgunarsveitarfólk og með betri þátttöku vonist almannavarnir til þess að geta þjónustað fjölmiðla betur, sem og aðra sem þurfa eða vilja komast á svæðið.
„Við erum að kalla til starfa björgunarsveitir af öllu landinu. Þetta er auðvitað hluti af kjarnastarfsemi björgunarsveita. Að bjarga fólki og verðmætum. Við treystum því að þau verði í góðu samstarfi við okkur áfram og það er ekkert sem bendir til annars. En við vitum að þetta eru sjálfboðaliðar og það reynir ekki síður á vinnuveitendur, núna þessa daga, að gefa fólkinu sem þekkingu og kunnáttu til að leysa þessi verkefni frí, og vonandi á launum, til að taka þátt í þessu mikla samfélagslega verkefni sem atburðarásin í Grindavík er.“
Takmarkanir fjölmiðla inni á svæðinu hafa verið gagnrýndar af bæði innlendu og erlendu fjölmiðlafólki.
Fengju fylgd inn á svæðið
Víðir segir að það eigi eftir að útfæra þetta betur en líklegast sé að fjölmiðlar myndu fá að fara inn á svæðið í hópum og hverjum hópi myndi fylgja björgunarsveitarmanneskja sem myndi fá upplýsingar um hættu eða ef það þyrfti að yfirgefa svæðið.
Spurður út í nýtt fyrirkomulag til að hleypa Grindvíkingum inn á svæðið segir Víðir að það hafi gengið betur með skráningarkerfinu en að það sé alltaf hægt að gera betur.
„Við viljum að þetta sé hnökralaust og það er unnið að því að lagfæra skráningarkerfið og mögulega forgangsröðun. Þannig við getum sótt upplýsingar inn í kerfið sem hjálpa okkur að forgangsraða. Við höfum verið að taka eftir götum og hverfum en sjáum svo inn í kerfinu beiðnir sem eru mjög mikilvægar,“ segir Víðir.
Hann segir dæmi fólk sem hefur ekki komist að sækja hjálpartæki fyrir börn, dýr sín og svo séu jafnvel sumir sem hafa ekkert fengið að komast heim.
Hann segir þann fjölda sem kemst að ráðast af viðbragðsaðilum sem eru til taks dag hvern. Hann segir vel fylgst með svæðinu og mögulegum mannaferðum.