Eins og fram hefur komið er kvika enn á grunnu dýpi undir og í grennd við bæinn. Benedikt G. Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur, sagði fyrr í dag í samtali við fréttastofu að líklegasta sviðsmyndin sé enn sú að komi til eldgoss muni gjósa nærri Hagafelli austan Þorbjörns.
Í tilkynningu Veðurstofu vegna uppfærðs hættumatskorts kemur fram að hættusvæðið hafi verið stækkað út frá nýjum gervitunglamyndum. Þær eru af Svartsengi og kvikuganginum en einnig voru tekin til greina gögn sem voru til umræðu í morgun á fundi almannavarna, sérfræðinga Veðurstofunnar og Háskóla Íslands.
Hættusvæðin eru þrjú eins og sjá má á kortinu. Almannavarnir og Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafa kortið til hliðsjónar í skipulagninu fyrir svæðið.
Áður hefur komið fram á vef Veðurstofunnar að gögnin sýni breytingar sem orðið hafa frá 18. til 19. nóvember. Þar megi sjá skýr merki um landris í Svartsengi á sömu slóðum og landris hafði áður mælst áður en kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember.