Innlent

Biðla til Grind­víkinga að tak­marka orku­notkun á fimmtu­dag

Jón Þór Stefánsson skrifar
Þrátt fyrir rýminguna má sjá jólaljós í Grindavík.
Þrátt fyrir rýminguna má sjá jólaljós í Grindavík. Vísir/Vilhelm

Orkuverið í Svartsengi og Svartsengislína eitt verða tekin úr rekstri á fimmtudagsmorgun á meðan Landsnet reisir nýtt mastur við varnargarðinn sem verið er að reisa í kringum Svartsengi. Áætlað er að aðgerðin taki um það bil tólf klukkutíma.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsneti, en þar er biðlað til Grindvíkinga að takmarka orkunotkun þennan dag. Verkið er unnið í samstarfi Landsnets við HS veitur og HS orku.

Á meðan aðgerðin stendur yfir mun Grindavíkurbær fá rafmagn frá þremur varaaflsvélum, sem nú er verið að flytja til Grindavíkur og verða tengdar inn á veitukerfið á með á verkinu stendur.

Fram kemur að vélarnar verði staðsettar á hafnarsvæðinu og geti annað 3,5 megavöttum sem eigi að geta séð Grindavík fyrir því rafmagni sem þörf er á.

„Við biðjum bæði fólk og fyrirtæki í Grindavík að takmarka orkunotkun þennan dag til að allt gangi að óskum. Að öðru leyti eigum við ekki von á að notendur verði fyrir rafmagnstruflunum vegna aðgerðarinnar,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×