Þetta segir í tilkynningu frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Þar segir að staðan verði endurmetin þann 27. desember.
Þá segir að frá og með Þorláksmessu verði lokunarpóstar á Grindavíkurvegi, Nesvegi og Suðurstrandarvegi. Íbúar í Grindavík, eigendur fyrirtækja og starfsmenn þeirra hafi heimild til að fara inn fyrir lokunarpósta allan sólarhringinn og íbúar megi gista í bænum.
Óviðkomandi einstaklingum verði ekki hleypt inn fyrir lokunarpósta að svo stöddu. Helstu fjölmiðlar hafi heimild til að fara inn fyrir lokunarpósta.
Fara niður á hættustig þar sem gosinu virðist lokið
Sérfræðingar Veðurstofunnar hafi hist á fundi í morgun klukkan 9:30 þar sem farið var yfir nýjustu gögn og klukkan 13 hafi Veðurstofan fundað með lögreglustjóra og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Samkvæmt nýju hættumatskorti Veðurstofu sé enn töluverð hætta á náttúruhamförum í Grindavík.

Ríkislögreglustjóri hafi ákveðið í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum að færa almannavarnastig af neyðarstigi niður á hættustig þar sem eldgos, sem hófst við Sundhnúkagíga 18. desember síðastliðinn virðist nú lokið.
Að öllu óbreyttu verði viðbúnaður lögreglu og björgunarsveita eins og að ofan greinir í og við Grindavíkurbæ.
Fréttin hefur verið uppfærð.