„Landrisið heldur áfram af krafti og við erum dálítið að ræða núna hvenær við verðum komin í sömu stöðu og hvort það hafi einhverja merkingu eða ekki,“ segir Halldór Geirsson jarðeðlisfræðingur hjá Háskóla Íslands, og á þá við þá stöðu sem var þegar byrjaði að gjósa 18. desember síðastliðinn.
„Það eru einhverjar vikur í það, ein, tvær eða þrjár,“ segir Halldór en að það geti líka myndast gangur fyrr ef svæðið er veikt fyrir.
„Það er töluverð hætta og greinilegt að kvikan er að safnast fyrir. Það lítur allt út fyrir að það sé verið að undirbúa næsta gangainnskot en það er þá bara spurning hvert það fer nákvæmlega.“
Hann segir að vel sé fylgst með mælum á svæðinu en þeir eru alls um tuttugu. Veðurstofan fundaði um stöðuna í morgun og er von uppfærðri frétt frá þeim um stöðuna síðar í dag.
Enn er því töluverð hætta við Grindavík en bærinn hefur þó verið opinn allan sólarhringinn frá því á Þorláksmessu og verður það í það minnsta þar til á föstudag þegar nýtt hættumat verður birt frá Veðurstofunni.