Hestavefurinn Eiðfaxi greinir frá tíðindunum. Þar segir að Vignir hafi verið búsettur í Svíþjóð um langa tíð og á sínum langa ferli náð frábærum árangri sem hestaíþróttamaður og ræktandi.
Hann vann meðal annars til verðlauna á heimsmeistaramóti íslenska hestins og keppti þar fyrir hönd Svíþjóðar. Vignis er minnst víða á samfélagsmiðlum og vitnað til hræðilegs slyss í gærkvöldi.
Fram kemur í frétt Gautaborgarpóstsins að karlmaður hafi látist í slysi á áttunda tímanum í gærkvöldi í Laholm. Svo virðist sem einstaklingur hafi orðið undir vinnutæki. Lögregla hafi náð að lyfta vinnutækinu af manninum og hafið endurlífgunartilraunir.
Lögreglan hafi í morgunsárið tilkynnt að maðurinn hafi látist vegna áverka. Aðstandendur hafi verið látnir vita. Málið er rannsakað sem vinnuslys og hefur hald verið lagt á vinnutækið sem talið er að hafi verið notað til að lyfta heyböggum.