„Við erum búin að fá að funda mjög oft með ríkisstjórninni og ráðuneytunum, þannig að samtalið hefur verið virkt. Þetta er afurðin núna, svona stóra myndin en nánari útfærsla er erfir,“ segir Fannar í samtali við fréttastofu.
Eins og fram hefur komið hafa stjórnvöld tilkynnt að þau muni skoða leiðir sem fela í sér að Grindvíkingar verði leystir undan veðskuldbindingum sínum gagnvart lántakendum. Fannar segir að sú leið hafi hugnast bæjaryfirvöldum vel.
„Það er flóknara að fara þá leið að borga upp lánin hjá Grindvíkingum og eignunum verði svo haldið við, hita og rafmagni að sjálfsögðu, heldur en þessi fyrsta leið þar sem var rætt um að bara kaupa eignirnar,“ segir Fannar.
„Okkur hugnast betur að ákveðin eignatengsl verði hjá íbúunum við fasteignirnar sínar, án þess að þurfa að bera ábyrgð á því að borga af lánunum, til þess að geta svo flutt aftur í það samfélag sem við viljum auðvitað að Grindavík verði í framtíðinni þó að tímaramminn sé auðvitað mjög óviss. “