Eins og fram hefur komið hefur heitavatnslögn farið í sundur vegna hraunrennslis úr eldgosinu sem hófst í morgun á Reykjanesi. Íbúar á Reykjanesi eru án hitaveitu sem stendur.
„Þyrlan verður höfð þarna suður frá frekar en hér í Reykjavík og þannig er þyrlusveitin tilbúin til að bregðast við ef leitað er til okkar,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar í samtali við Vísi.
Hann segir þyrluna þá til taks í margskonar verkefni sem upp geti komið. Mikilvægast sé að tryggja hröð viðbrögð gæslunnar.
„Þá er varðskipið Freyja í Húnaflóa og mun halda áleiðis inn í Stakksfjörð til þess að vera þar til taks.“