Á vef Veðurstofunnar segir að það verði hægari og þurrt austantil, en dálítil snjókoma þar í kvöld. Hiti verður um eða yfir frostmarki suðvestanlands, en annars núll til átta stiga frost.
„Minnkandi suðaustanátt á morgun og hlýnar heldur. Rigning eða slydda á Suðausturlandi og Austfjörðum, en úrkomulítið í öðrum landshlutum. Það er stutt í kalt loft fyrir norðan land og síðdegis er búist við vaxandi norðaustanátt á Vestfjörðum með lítilsháttar snjókomu og kólnandi veðri.
Á sunnudag er útlit fyrir hvassa norðaustanátt og hríðarveður, en hægari vind og rigningu eða slyddu sunnan- og austanlands. Þeim sem hyggja á ferðalög er bent á að fylgjast vel með fréttum af færð og veðri,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag: Minnkandi suðaustanátt og hlýnar, 3-8 m/s seinnipartinn og hiti víða 0 til 5 stig. Rigning eða slydda suðaustantil, en lítilsháttar úrkoma með köflum í öðrum landshlutum. Vaxandi norðaustanátt á Vestfjörðum um kvöldið og kólnar.
Á sunnudag: Norðaustan 15-23 á Norðvestur- og Vesturlandi, snjókoma eða él og vægt frost. Mun hægari vindur sunnan- og austantil, rigning eða slydda með köflum og hiti 0 til 5 stig.
Á mánudag: Hvöss norðanátt norðvestantil á landinu, annars hægari vindur. Snjókoma eða él og frost 1 til 8 stig, en hlýrra suðaustan- og austantil fram eftir degi með dálítilli rigningu eða slyddu. Herðir á frosti um kvöldið.
Á þriðjudag og miðvikudag: Norðan- og norðvestanátt og él, en úrkomulítið sunnan heiða. Kalt í veðri
Á fimmtudag: Útlit fyrir austanátt með snjókomu eða slyddu.