Staðan á eldgosinu er svipuð og hún hefur verið í dag, að sögn Pálma Erlendssonar, náttúruvásérfræðings á Veðurstofu Íslands. Hann segir enn nokkuð mikla virkni í gígum og talsvert af kviku enn að koma upp. Hraun rennur í suðurátt frá gígunum og færist nær Suðurstrandarvegi og í átt að sjó. Hinsvegar er hrauntungan sem rann í vesturátt að Svartsengi stopp.
Pálmi segir að krafturinn í rennsli sé of lítill til að hrauntungan færist áfram, en hann komi en þetta kemur í bylgjum eða púlsum svo hann gæti tekið sig upp aftur.
Augu sérfræðinga á mælum
Enn eru um fjögur hundruð metrar í að hraun nái að Suðurstrandavegi en það fer ekki hratt yfir.
„Þetta er breytilegur hraði, dálítið púlsakenndur, en á einhverjum tímapunkti var þetta um tuttugu metrar á klukkustund.“
Aðspurður um hver hann telji að framvindan verði segir Pálmi telja að hrauntungan haldi áfram á svipuðum hraða, hugsanlega dragi hægt úr honum eftir því sem líði á daginn en það sé þó ómögulegt að segja til um.
Hann segir augu sérfræðinga vera á mælum, hvort óróa eða aukinnar skjálftavirkni verði vart en eins og er séu ekki nein merki um slíkt. Þá eigi hann von á því að þegar þessum atburði ljúki hefjist landris aftur að nýju og við gætum séð endurtekinn atburð eftir nokkrar vikur.
Ef ég á að byggja bara á því sem búið er að vera í gangi undanfarið ég halda það. En jörðin getur strítt okkur og gert eitthvað annað.
Þá bendir Pálmi á að þegar hraun fari í sjó geti myndast hættulegar gastegundir og því sé engum hollt að dvelja nálægt þegar, og ef það gerist.