Í hugleiðingum veðurfræðings segir að víða verði tíu til átján metrar á sekúndu síðdegis og snjókomu með köflum um landið norðanvert. Undir kvöld lægir suðvestantil á landinu.
„Í nótt dýpkar lægðin ört og á morgun er útlit fyrir norðaustan storm á Vestfjörðum með talsverðri ofankomu, sannkölluð stórhríð og ekkert ferðaveður. Annars staðar á Norður- og Norðvesturlandi verður einnig stíf norðaustanátt og slydda eða snjókoma, en sunnan- og austanlands verður vindur yfirleitt mun hægari og rigning eða slydda með köflum.
Annað kvöld snýst í norðan og norðvestan hvassviðri eða storm á landinu með talsverðri snjókomu um landið norðanvert, og ekki er útlit fyrir að veðrið gangi niður fyrr en aðfaranótt laugardags,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Norðlæg eða breytileg átt 10-18, en norðaustan 18-25 m/s norðvestanlands. Snjókoma eða slydda um landið norðanvert, en rigning eða slydda með köflum sunnan- og austantil. Hiti 0 til 6 stig, en kólnar um kvöldið.
Á föstudag: Norðan 15-23 og snjókoma, en úrkomulítið sunnantil. Hiti um eða undir frostmarki, en mildara á Suðausturlandi. Fer að draga úr vindi undir kvöld.
Á laugardag: Minnkandi norðlæg átt, 5-13 síðdegis. Él á Norður- og Austurlandi, annars þurrt að mestu. Frost 0 til 7 stig, en frostlaust syðst.
Á sunnudag: Norðaustan og austan 5-13. Dálítil él og frost 1 til 9 stig, en snjókoma með köflum við suðurströndina og hiti kringum frostmark.
Á mánudag: Norðlæg átt og él, en þurrt að kalla á Vesturlandi. Frost 2 til 12 stig.
Á þriðjudag: Norðaustanátt og snjókoma með köflum, en yfirleitt þurrt sunnanlands. Dregur úr frosti.