Íslenski boltinn

„Halda kannski að ég geti bara komið hingað og við förum bara að vinna titla“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Kristinsson á hliðarlínunni sem þjálfari KR sem hann gerði þrívegis að Íslandsmeisturum.
Rúnar Kristinsson á hliðarlínunni sem þjálfari KR sem hann gerði þrívegis að Íslandsmeisturum. Vísir/Hulda Margrét

Það styttist í fyrsta leik Bestu deildar karla í fótbolta og Baldur Sigurðsson fer í sína síðustu heimsókn í kvöld þegar lokaþáttur Lengsta undirbúningstímabils í heimi er á dagskrá á Stöð 2 Sport í kvöld.

Baldur hefur hingað til heimsótt lið Stjörnunnar, ÍA, Vals, Vestra og HK en núna er komið að því að kíkja á Framara. Þátturinn er sýndur á Stöð 2 Sport og byrjar klukkan 20.00.

Rúnar Kristinsson var í þáttunum í fyrra en þá sem þjálfari KR-liðsins. Nú hefur hann fært sig yfir í Garfarholtið og stýrir Framliðinu í sumar.

„Það fylgja þér miklar væntingar. Er ekki pressa að koma hingað í Fram með þessar væntingar,“ spurði Baldur fyrrum þjálfara sinn.

„Jú vissulega. Ég hef hitt ofboðslega marga Framara og fengið fréttir af Framörum sem hafa glaðst yfir því að ég sé að koma. Þá finnur maður fyrir þessari pressu,“ sagði Rúnar og hélt áfram.

„Það sem fylgir þessu oft er að fólk heldur kannski að ég geti bara komið hingað og við förum bara að vinna titla. Ég held að flest allir vita það að þarf miklu meira til,“ sagði Rúnar.

Hann kallar eftir frekari liðstyrk fyrir átökin í Bestu deildinni.

„Við þurfum góðan leikmannahóp og við þurfum að styrkja liðið. Við þurfum að bæta við okkur góðum leikmönnum. Það er ekki af ástæðulausu að Framliðið varð í tíunda sæti í fyrra eða áttunda sæti þar á undan,“ sagði Rúnar.

„Yfirleitt lýgur taflan ekkert. Ég sem þjálfari tek ekki við sama leikmannahópnum og lyfti þeim upp um tíu sæti eða átta. Það þarf meira til, gott teymi og góða þjálfara. Menn telja sig kannski vera með það í höndunum núna miðað við það hvernig menn tala,“ sagði Rúnar.

„Ég þarf að fá backup líka. Ég þarf að fá leikmenn og við þurfum að fá stuðning frá öllum. Ég er ekkert að fara út á völl og vinna fótboltaleiki. Ég get reynt að stýra liðinu og reynt að gera mitt besta ,“ sagði Rúnar.

„Þetta getur allt orðið eins og í fyrra ef ég næ ekki til leikmannanna. Best fyrir mig væri að fá tvo til þrjá nýja leikmenn í viðbót við þá tvo sem ég er búinn að fá. Við erum reyndar búnir að missa töluvert fleiri. Af hverju ætti ég að ná eitthvað betri árangri en náðist í fyrra,“ spurði Rúnar.

Það má sjá brot úr þætti kvöldsins hér fyrir neðan.

Klippa: Þá finnur maður fyrir þessari pressu



Fleiri fréttir

Sjá meira


×