Samkvæmt heimildum fréttastofu mættu ráðherrar í ríkisstjórn Katrínar hver á fætur öðrum á Dunhagann í vesturbæ Reykjavíkur þar sem Katrín býr í fjölbýlishúsi. Bjarni Benediktsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Willum Þór Þórsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Svandís Svavarsdóttir og Guðrún Hafsteinsdóttur sáust öll koma í vesturbæinn.
Katrín upplýsti um framboð sitt til forseta Íslands á samfélagsmiðlum í dag. Katrín mun á sunnudag ganga á fund Guðna Th. Jóhannessonar forseta lýðveldisins og biðjast lausnar úr embætti forsætisráðherra.
„Ég mun á mánudaginn senda forseta þingsins bréf og segja af mér þingmennsku og í dag mun ég hitta stjórn Vinstri grænna og segja af mér formennsku í flokknum,“ sagði Katrín eftir hádegið.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson varaformaður VG segir við fréttastofu að verkefnið fram undan sé að ræða við hina stjórnarflokkana um samstarfið fram undan. Fullur vilji sé hjá VG og nú liggi fyrir ákvörðun um að hittast og funda.
Hann segir þá Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins og Sigurð Inga Jóhannsson formann Framsóknar þegar hafa sest niður óformlega og ákveðið að funda frekar um málið. Þau Svandís Svavarsdóttir hafi saman umboð frá VG til að ræða við hina flokkana.
Sigurður Ingi hefur sagst ekki útiloka kosningar nú þegar forsætisráðherra hverfi á braut.