Fótbolti

Átta mánaða fangelsi fyrir kyn­þátta­níð í garð Vinicius

Aron Guðmundsson skrifar
Vinicius Jr. leikmaður Real Madrid 
Vinicius Jr. leikmaður Real Madrid  Vísir/Getty

Þrír karlmenn hafa verið sakfelldir og hlotið átta mánaða fangelsisdóm fyrir kynþáttaníð í garð Vinicius Jr., leikmanns Real Madrid, í leik liðsins gegn Valencia í maí árið 2023.

Það er spænski miðillinn Marca sem greinir frá en karlmennirnir þrír eru allir stuðningsmenn spænska úrvalsdeildarfélagsins Valencia. Auk átta mánaða fangelsisdómsins hefur umræddum aðilum verið meinað að sækja knattspyrnuleiki á leikvöngum næstu tvö árin.

Það var í leik Valencia og Real Madrid árið 2023 sem kynþáttaníði var beint að Vinicius Jr. Leikurinn var stöðvaður í nokkrar mínútur þar sem að Vinicius reyndi að fá dómara leisins til þess að aðhafast eitthvað í málinu.

Um tímamótaúrskurð er að ræða og er þetta í fyrsta sinn á Spáni sem dómur í svona máli tengdur knattspyrnusamfélaginu þar í landi fellur.

„Þessi úrskurður eru frábærar fréttir í baráttunni gegn kynþáttaníði á Spáni,“ lét Javier Tebas, forseti La Liga hafa eftir sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×