Innlent

Allt önnur spá í kortunum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Einar Sveinbjörns er bjartsýnn á sumarið, í hið minnsta á hluta af landinu.
Einar Sveinbjörns er bjartsýnn á sumarið, í hið minnsta á hluta af landinu. Vísir/Vilhelm

Veðurspár næstu tíu daga sýna allt aðra mynd í meðalveðrinu en verið hefur síðustu tíu daga. Með umbreytingunni fylgir rigning og strekkings SA-vindur sunnanlands næstu tvo daga en eftir það fremur sólríkt að jafnaði fram yfir sumarsólstöður. Spáin gefur tilefni til bjartsýni og marga sólardaga, í hið minnsta sunnan- og vestantil.

Þetta kemur fram á Blika.is, vef Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings. Þar kemur fram að fyrstu tíu daga júnímánaðar hafi hitinn verið 2,4 stigum undir meðaltali og nærri því fjórum stigum undir á Akureyri. Fátíð kuldafrávik fyrir norðan.

Háloftlægðin kalda norðaustundan hafi verið áberandi á meðalkorti síðustu tíu daga sem og kalt hitafrávikið í neðri hluta lofthjúps. Nú eru að verða á því breytingar.

Sérlega hagfelld veðurstaða vestanvert

Þriðja kortið sem Einar spáir í er um þrýstifrávik næstu tíu daga. Þar sést dálítið háþrýstisvæði norðaustur af landinu og með henni ríkjandi hægur vindur af austan og norðaustanátt.

Það segir Einar að sé sérlega hagfelld veðurstaða ef úr rætist um vestanvert landið. Hins vegar séu líkur á því að svalara gæti orðið austan- og norðaustanlands ef kemur til með að anda af hafi flesta daga.

Hitaspá fyrir vikuna 17. til 24. júní sýni jákvæð hitafra´vik yfir mest öllu landinu en neikvætt frávik kemur fram austan- og norðaustantil. Úrkomufrávik eru ekki sýnd þessa sömu vikuna, en reiknað er með að fremur þurrt verði almennt séð á landinu þessa vikuna að sögn Einars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×