Í Skógarnesi við Apavatn í Bláskógabyggð á Rafiðnaðarsamband Íslands 16 hektara land þar sem er búið að byggja upp glæsilega aðstöðu fyrir félagsmenn og er alltaf verið að bæta smátt og smátt í frekari uppbyggingu. Mikil stemning var á svæðinu um helgina á árlegri fjölskylduhátíð þar sem ungir sem aldnir léku sér saman og nutu veðurblíðunnar.
„Hér var mjög margt í boði. Við vorum til dæmis með golfkeppni, frisbígolf keppni, fótboltakeppni, víðavangshlaup og margt fleira,” segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands
Og þetta er glæsilegt svæði hjá ykkur?
„Já, þetta er alveg svakalega flott svæði, sem við eigum hérna á Skógarnesi við Apavatn og gríðarlega vinsælt á meðal okkar félagsfólks. Það er náttúrulega búið að vera að byggja þetta upp á síðustu áratugum og hefur verið mikið lagt í þetta svæði hjá okkur,” segir Kristján Þórður.

Og fullt af sumarbústöðum eru á svæðinu og margir þeirra mjög nýlegir.
„Svæðið er alveg rosalega vel nýtt allt sumarið. Orlofshúsin eru bókuð allar vikur yfir sumartímann og allar helgar yfir vetrartímann og síðan eru tjaldsvæðin yfirfull allar helgar og oft á virkum dögum líka,” bætir Kristján Þórður við.

Einn af hápunktum helgarinnar var hljómsveitin Sniglabandið, sem mætti á svæðið á laugardagskvöldinu með öll af sínu bestu lögum.

