Það leynist ýmislegt skemmtilegt í tösku Viktoríu.

Hvað er í töskunni þinni og segðu okkur aðeins frá því sem þar er að finna?
Þegar ég er með töskuna á mér er ég svona Mary Poppins manneskja sem er með allt fyrir alla; nokkrar tegundir af verkjalyfjum, upptakara, plástra, hleðslubanka, teygjur og myntur svo fátt eitt sé nefnt.
Ég er með ADHD sem getur verið svolítið íþyngjandi og þá finnst mér stundum yfirþyrmandi að hafa allt þetta dót með mér. Þess vegna skil ég töskuna mína stundum eftir heima og tek lyklana bara með, ef ég er svo heppin að muna eftir þeim. Ég gleymi stundum símanum mínum líka, það er hressandi.
Þessa dagana er ég í smávegis vegferð að líta á ADHD-ið mitt sem fallegan hlut en ekki einhvern leiðinlegan galla, taskan mín væri ekki full af spennandi dóti sem hefur komið sér vel fyrir marga nema fyrir ADHD-ið mitt.
Þegar kemur að því að velja stærð á tösku þá vandast oft málið og ég held að allar konur þekki það vel. Við sannfærum okkur um að kaupa nýja tösku af því að við erum alltaf að leita að þessari fullkomnu (sem leysir öll okkar farandsgeymsluvandamál).
Við bara verðum að kaupa þessa nýju flottu af því að hún er hin fullkomna stærð, teljum við okkur trú um í búðinni, hún er ekki of stór en það kemst samt allt í hana. Ég veit ekki hvað oft ég hef sagt þetta við sjálfa mig en samt vantar mig alltaf nýja tösku.

Hefur einhver hlutur tilfinningalegt gildi?
Já fallega Contax filmumyndavélin mín sem ég fékk í afmælisgjöf frá kærastanum mínum, Vigni Daða. Mér finnst best í heimi að geta tekið fallegar myndir hvenær sem er. Þegar ég er með myndavél á mér (ekki Iphone) horfi ég allt öðruvísi á heiminn, sé fegurðina í öllu, þá næ ég augnablikum sem símamyndavélin nær ekki.

Allt gamalt dót sem ég hef keypt notað á mörkuðum út um allan heim er mér líka sérlega kært og minnir mig á að passa svolítið betur upp á þessa hluti því ég veit að eitt sinn voru þeir keyptir og elskaðir af einhverjum öðrum.

Er eitthvað sem er alltaf í töskunni þinni?
Ég er að vinna í AD deild (aðstoðarleikstjóradeild) í kvikmyndagerð og hef fengið ótrúlegustu fyrirspurnir á setti um hvort ég sé með eitthvað ákveðið á mér. Þá finnst mér svo þægilegt að vera tilbúin með hvað sem er hvenær sem er.
Eitt kaótískasta augnablik vinnuferils míns var þegar ein leikkonan fékk flís og það vantaði flísatöng á settið, ég hljóp um allt stúdíóið að leita að flísatöng. Síðan þetta gerðist er ég alltaf með eina slíka á mér.
Auk þess er ég alltaf með dagbókina mína í töskunni, ég er búin að ganga með dagbók á mér nánast á hverjum degi í tíu ár og hef klárað svona þrettán stykki. Ég skrifa bara hvað sem er í þær, allt frá textum, ljóðum, teikningum og svo bara yfir í eitthvað persónulegt rugl.

Hver er þín uppáhalds taska og af hverju?
Ég hoppaði í raun mjög seint á töskuvagninn og skildi ekki af hverju konur eins og amma og mamma voru alltaf að kaupa sér nýjar og nýjar töskur? Mér fannst ekki skipta máli hvaða tösku þú notar heldur fannst mér innihaldið skipta meira máli … „little did I know“.
Ég á töskur frá ýmsum merkjum bæði „high end“ og milli merki en uppáhaldsmerkið mitt er Coach. Mér finnst þær svo vel hannaðar og flottar og svo var líka fyrsta svona vandaða taskan mín taskan frá Coach og ég er búin að nota hana endalaust. Núna er nýja hvíta coach taskan mín í miklu uppáhaldi.
Ég elska ljósar töskur og töskur með ljósu áklæði því það er miklu léttara að finna hluti í þeim. Auk þess á ég þrjár Longchamp töskur sem ég algörlega elska, finnst þær svo klassískar og fallegar á viðráðanlegu verði.

Ertu dugleg að taka til í töskunni þinni og halda röð og reglu?
Já og nei, eins og mér finnst ógeðslega gaman að taka til og raða í töskuna mína er ég alveg jafn fljót að gjörsamlega rústa henni aftur. En því fallegra sem dótið í töskunni er því léttara er fyrir mig að halda henni í reglu.

Ertu gjarnan með margar töskur á þér eða margar til skiptanna?
Hmm, ég er oftast með eina stóra en í henni eru kannski þrjár til fimm mismunandi litlar buddur með alls konar dóti sem þægilegt er að kippa úr töskunni.
Þegar ég ferðast um Ísland enda ég samt alltaf með svona tíu töskur, eina fyrir útifötin, eina fyrir húðumhirðuvörur, eina fyrir förðunardót og svo mætti lengi telja.

Stór eða lítil taska og af hverju?
Stór á Íslandi, lítil í útlöndum. En ef það er stór taska eru líklega margar litlar ofan í henni og ef ég er með litla tösku er ég með margar litlar. Þannig að bæði er betra.