Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari hefur lagt til við dómsmálaráðherra að Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari verði leystur tímabundið frá störfum vegna kæru á hendur honum fyrir ummæli um innflytjendur frá Mið-Austurlöndum. Helgi og fjölskylda hans hafa mátt sæta hótunum af hálfu Mohamads Thors Jóhannessonar, áður Kourani, undanfarin ár. Helgi sagði í tilefni af dómi yfir Kourani að verið væri að flytja inn kúltúr í stórum stíl sem væri frábrugðin því sem Íslendingar ættu að venjast. Solaris, hjálparsamtök, hafa kært Helga fyrir ummæli sín.
Hefði getað orðað hlutina öðruvísi
Helgi fékk að vita af ósk Sigríðar til ráðherra í gegnum tölvupóst, sem hann las eftir að samstarfsfólki hans var tilkynnt um hana. Hann segist ekki hafa heyrt frá Sigríði eftir það.
„Þetta kom mér verulega á óvart, og í raun finnst mér ekki mikill sómi að þessari framgöngu. Ég verð að segja það eins og er,“ segir Helgi.
Hann ítrekar að ummælin varði mál sem tengist hans persónu og öryggi fjölskyldu hans.
„Maður er náttúrulega mannlegur og maður tekur ýmislegt á sig og ber sig vel. En ég hef áttað mig á því í framhaldi af öllu þessu hvaða álag það hefur verið að vera í þrjú ár sífellt með hugann við það hvort börnin manns séu örugg heima hjá sér.“
Hann segir að mögulega hefði hann átt að láta það ógert að láta ummælin falla.
„Ég reyndar held að þetta hafi allt verið mjög hófstillt og ekki tilefni til þessara viðbragða ríkissaksóknara yfir höfuð. En maður hefði nú svosem alveg getað orðað hlutina aðeins öðruvísi, það er eins og alltaf, maður er bara mannlegur. En ég vil taka fram að ég tel ekki að ég hafi farið yfir nein strik,“ segir Helgi.