Fjallað var um það á Vísi í morgun að björgunarsveitarfólk og meðlimir kajaksamfélagsins óttuðust áform um virkjun Tungufljóts í Bláskógabyggð, þar sem hún yrði þess valdandi að einstakar flúðir sem nýttar hafa verið til björgunaræfinga og kajakkeppna myndu tapast.
Sveitarstjóri Bláskógabyggðar segir áformin í fyrsta fasa, og ekkert ákveðið enn.
„Það kom þessi svokallaða skipulagslýsing inn til sveitarstjórnar og skipulagsnefndar og sveitarstjórnar. Það var ákveðið að hleypa henni í kynningu. En það var áskilið, samhliða því að hún yrði auglýst og öllum gefinn kostur á að gera athugasemdir, þá yrði haldinn íbúafundur til að kynna hana enn frekar því þetta er talsvert mikil breyting á þessu svæði,“ segir Ásta Stefánsdóttir sveitarstjóri.
Allt vel kynnt
Áformin felast ekki aðeins í virkjun, heldur einnig 35 frístundalóðum með tveimur húsum á hverri lóð, auk veitinga- og gistiþjónustu á svæði milli Gullfoss og Geysis, tveggja afar vinsælla ferðamannastaða.
„Það er vilji sveitarstjórnar að þetta verði kynnt mjög ítarlega. Þetta er svona í fyrsta fasa. Ef það verður ákveðið að hleypa í gegn þessu skipulagsmáli, þá kemur deiliskipulagstillaga sem fer líka í auglýsingu.“
Þrátt fyrir það sé best að fá athugasemdir sem fyrst.
„Við hvetjum bara alla sem eitthvað hafa um þetta að segja til að skila inn athugasemdum.“
Ásta segist skilja að landeigendur vilji nýta land sitt til uppbyggingar.
„En það þarf auðvitað bara að huga vel að öllum þáttum og hvaða starfsemi er á hverju svæði,“ segir Ásta.