Þrátt fyrir að maður taki ekki alltaf eftir þeim leynast falleg vegglistaverk víða um borgina. Verkin eru eftir fjölda listamanna en eiga það flest sameiginlegt að vera í miðborginni, eins og sjá má á kortinu sem Reykjavíkurborg hefur gert aðgengilegt öllum. Á kortinu er hægt að sjá hvar má finna verkin og hver málaði þau.
Listakona sem hefur gert nokkur verk í borginni, þar á meðal þetta á myndinni fyrir neðan, segir kortið gera mikið fyrir bæði borgarbraginn og listamennina.

„Þetta gerir manni kleift að upplifa borgina á annan hátt. Maður getur farið eftir kortinu og séð veggmyndirnar, fylgt þeim um borgina,“ segir Natka Klimowicz, myndlistarkona.
Adam Flint Taylor, fagstjóri í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands, er mikill áhugamaður um veggjalist.
„Ég held að þær auki menningarlegan skilning því margar veggmyndir hafa einhvers konar menningarlega tengingu. Sumar veggmyndirnar sem við tölum um tengjast listasögu Íslands. Svo ég held að þær hjálpi til við að segja þá sögu í almannarýminu,“ segir Adam.

Þau hvetja húseigendur í úthverfum borgarinnar að heyra í listamönnum og láta mála vegglistaverk. Einnig fólk utan höfuðborgarsvæðisins.
„Það er hægt að gera eitthvað sem íbúarnir vilja, eitthvað sem uppfyllir þarfir þeirra og fjallar um það sem er mikilvægt fyrir þá. Svo það er ekki bara þannig að listamaður geri veggmynd út frá sjálfum sér heldur getur það verið samstarfsverkefni,“ segir Natka.
Það eru ekki öll verk á kortinu sem er alltaf að stækka. Þeir sem eru með ábendingar um verk sem vantar geta sent póst á veggjalist@gmail.com.