Veður

Allt að 17 stig á Austur­landi

Lovísa Arnardóttir skrifar
Það verður milt og hlýtt á Austurlandi í dag.
Það verður milt og hlýtt á Austurlandi í dag. Vísir/Vilhelm

Nú er lægð á leið norðaustur yfir land með rigningu víða og mildu veðri, en þurru og hlýju á Austurlandi framan af degi. Hiti verður á bilinu sex til 17 stig og hlýjast austantil. Svo snýst í norðvestan golu eða kalda seinnipartinn, þá styttir upp sunnan- og vestanlands og kólnar í veðri.

Í hugleiðingum veðurfræðings kemur fram að í kjölfar lægðarinnar snýst í svalari norðvestlæga átt og styttir upp sunnan- og vestanlands.

Á morgun verður svo suðvestan kaldi eða strekkings vindur norðvestantil á landinu, annars fremur hægur vindur. Víða þurrt og bjart veður, en dálitlar skúrir á Vestur- og Norðvesturlandi. Hiti verður á bilinu 5 til 12 stig yfir daginn.

Á föstudag er útlit fyrir hæga austlæga átt með þurru veðri og svipuðum hita áfram. Nánar á vef Veðurstofunnar og færð vega á vef Vegagerðarinnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:

Suðvestan 8-13 m/s norðvestantil, annars hægari vindur. Dálitlar skúrir vestanlands, en léttskýjað á Norðaustur- og Austurlandi. Hiti 5 til 10 stig yfir daginn.

Á föstudag:

Hæg austanátt og skýjað með köflum, hiti breytist lítið.

Á laugardag:

Austlæg átt og úrkomulítið, en fer að rigna um landið norðvestanvert síðdegis. Hiti 4 til 10 stig.

Á sunnudag (haustjafndægur):

Norðaustlæg eða breytileg átt og víða rigning eða slydda. Heldur kólnandi.

Á mánudag:

Norðaustanátt og dálitlar skúrir eða slydduél norðan- og austanlands, en þurrt á Suður- og Vesturlandi. Hiti 2 til 9 stig, mildast syðst.

Á þriðjudag:

Austlæg átt og víða bjart, en skýjað austanlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×