Lífið

Janet Jackson biðst af­sökunar á undar­legum um­mælum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Ummælin lét hún falla í viðtali við breska miðilinn Guardian.
Ummælin lét hún falla í viðtali við breska miðilinn Guardian. AP/Richard Shotwell

Söngkonan Janet Jackson hefur beðið Kamölu Harris forsetaframbjóðanda afsökunar fyrir ummæli sem hún lét falla í hennar garð sem vöktu mikla reiði vestanhafs.

Í ítarlegu viðtali við breska miðilinn Guardian gerði Janet Jackson ferilinn upp og fór um víðan völl. Umræðan barst að stjórnmálaástandinu í heimalandinu hennar og það var þá sem hún lét þessi undarlegu ummæli falla:

„Hún er ekki svört. Það er það sem ég hef heyrt. Að hún sé indversk.“

Eftir að blaðamaður Guardian hafði sagt henni að Kamala Harris væri bæði af afrísku og indversku bergi brotin skaut Janet inn í:

„Faðir hennar er hvítur. Það er það sem mér er sagt. Ég meina, ég hef ekkert fylgst með fréttum í nokkra daga. Mér var sagt að það hefði komið í ljós að faðir hennar væri hvítur.“

Þessi ummæli vöktu harkaleg viðbrögð meðal margra vestanhafs og nú hefur umboðsmaður söngstjörnunnar og systur Jackson-bræðra tjáð sig um málið. Í yfirlýsingu segir hann að ummælin séu byggð á misupplýsingum og að hún beri í raun mikla virðingu fyrir Harris.

Rangupplýsinga um fjölskyldusögu Harris hefur gætt á samfélagsmiðlum vestanhafs. Donald Trump mótframbjóðandi hennar gerði sjálfur athugasemdir um uppruna hennar í kappræðum þeirra sem fóru fram fyrr í mánuðinum.

„Ég veit ekki. Ég meina, málið er að ég las einhvers staðar að hún væri ekki svört og svo las ég að hún væri svört og það er allt í góðu. Bæði er í fínasta lagi mín vegna. Það er undir henni komið,“ sagði hann.

Þess má geta að faðir Kamölu, Donald Harris, er jamaísk-bandarískur prófessor við Stanfordháskóla og móðir hennar heitin, Shyamala Gopalan, var indversk vísindakona. Þau fluttust bæði til Bandaríkjanna og kynntust við nám í Kalíforníuháskólanum í Berkeley.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×