Innlent

Sagður hafa skemmt bíl og stungið eig­anda hans í kjöl­farið

Jón Þór Stefánsson skrifar
Atvikið sem málið varðar er sagt hafa átt sér stað í Kópavogi árið 2022. Myndin er úr safni.
Atvikið sem málið varðar er sagt hafa átt sér stað í Kópavogi árið 2022. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur verið ákærður fyrir að valda skemmdum á bíl annars manns, brjótast inn til hans og stinga hann í tvígang. Atvikið sem málið varðar átti sér stað í Kópavogi árið 2022.

Fréttastofa hefur ákæru málsins undir höndum, en í henni segir að maðurinn hafi valdið spjöllum á bíl mannsins sem var lagt í bílastæði fyrir utan hús hans. Árásarmaðurinn hafi slegið slökkvitæki nokkrum sinnum í framrúðu bílsins sem hafi brotnað.

Síðan hafi hann farið heimildarlaust inn á heimili mannsins sem varð fyrir árásinni og ráðist á hann. Honum er gefið að sök að stinga hann tvisvar með hnífi vinstra megin í brjóstkassa. Síðan hafi þeir tveir lent í átökum.

Samkvæmt ákæru hlaut sá sem varð fyrir árásinni sár ofarlega á brjóstkassa við geirvörtu, og annað minna sár neðarlega á brjóstkassa. Einnig hafi hann hlotið aðra áverka víðs vegar um líkamann.

Meintur árásarmaður er ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás.

Það er héraðssaksóknari sem höfðar málið sem verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness. Maðurinn sem varð fyrir árásinni krefst fjögurra milljóna króna í miskabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×