Hátt í sex hundruð hafa farist í árásum Ísraelshers í Líbanon og leiðtogar vara við allsherjarstríði. Albert Jónsson, sérfræðingur í öryggis- og varnarmálum, mætir í myndver og fer yfir viðkvæma stöðu fyrir botni Miðjarðarhafs.
Við hittum konu sem þurfti að bíða í ár eftir NPA-þjónustu en hún segir brotið á mannréttindum fatlaðs fólks, barna þeirra og fjölskyldu. Biðin bitnaði illa á manni hennar og dóttur og hún finnur til með þeim sem hafa þurft að bíða enn lengur.
Brotist hefur verið inn í fjölmargar reiðhjólaverslanir á árinu. Við sjáum myndefni úr öryggismyndavél og ræðum við lögreglu sem segir dæmi um að erlendir glæpahópar fái Íslendinga til þess að brjótast inn í búðirnar fyrir sig.
Þá fer Kristján Már Unnarsson yfir stöðuna á smíði nýrrar Ölfusárbrúar sem er í uppnámi vegna skilyrðis um að gjaldtaka standi undir kostnaði auk þess sem við heyrum sögu kattar sem ferðaðist þvert yfir Bandaríkin til þess að komast heim til eigenda sinna.
Í Sportpakkanum heyrum við í Hermanni Hreiðarssyni sem segist aldrei hafa misst trúna á því að ÍBV myndi koma sér upp í Bestudeildina og í Íslandi í dag fer Kristín Ólafsdóttir í göngutúr um miðbæinn með arkitekt og skoðar nýbyggingar sem hann er hrifinn af.
Þetta og margt fleira í opinni dagskrá á samtengdum rásum Bylgjunnar, Stöðvar 2 og Vísis klukkan 18:30.