Enski boltinn

Ofur­vara­maðurinn Duran fær nýjan sex ára samning

Aron Guðmundsson skrifar
Jhon Duran hefur skrifað undir nýjan samning við Aston Villa
Jhon Duran hefur skrifað undir nýjan samning við Aston Villa Vísir/Getty

Kólumbíski framherjinn Jhon Duran hefur skrifað undir nýjan sex ára samning við enska úrvalsdeildarfélagið Aston Villa. 

Það er The Athletic sem greinir frá þessu núna í morgun en Duran hefur verið í fanta formi fyrir Aston Villa á yfirstandandi tímabili og skorað sex mörk í tíu leikjum í öllum keppnum og það þrátt fyrir að hafa aðeins byrjað einn af leikjunum tíu. 

Framtíðin er björt hjá þessum tvítuga sóknarmanni og forráðamenn Aston Villa gera sér grein fyrir því. Duran hefur nú skrifað undir nýjan samning sem rennur út árið 2030. 

Duran hefur verið fyrir aftan enska landsliðsframherjann Ollie Watkins í goggunarröðinni en þeir tveir spiluðu saman hlið við hlið í markalausu jafntefli gegn Manchester United um síðastliðna helgi. 

Hvíslað var um það fyrir tímabilið að Duran væri eftirsóttur af liðum á borð við Chelsea og West Ham United en nú hefur hann ákveðið að festa rætur á Villa Park. 

Duran gekk til liðs við Aston Villa frá MLS liðinu Chicago Fire í janúar á síðasta ári og hefur hann nú spilað 59 leiki fyrir félagið og skorað fjórtán mörk. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×