Handbolti

Ís­lensk upp­risa dugði ekki til og Bjarki fagnaði gegn löndum sínum

Sindri Sverrisson skrifar
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Fredericia, á hliðarlínunni í Ungverjalandi í kvöld.
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Fredericia, á hliðarlínunni í Ungverjalandi í kvöld. EPA-EFE/Tamas Vasvari

Bjarki Már Elísson var eini Íslendingurinn sem fagnaði sigri í kvöld þegar þrjú Íslendingalið voru á ferðinni í Meistaradeild Evrópu í handbolta.

Bjarki skoraði fjögur mörk fyrir Veszprém í ansi naumum sigri gegn Fredericia, liðinu sem Guðmundur Guðmundsson stýrir, í Ungverjalandi, 34-32.

Einar Þorsteinn Ólafsson stal boltanum á lokamínútunni og Fredericia, sem mest hafði verið sjö mörkum undir, náði að minnka muninn í eitt mark þegar enn voru rúmar fjörutíu sekúndur en Veszprém skoraði svo lokamark leiksins.

Það var einnig mikil spenna í Noregi þar sem Kolstad varð að lokum að sætta sig við eins marks tap, 33-32, gegn Kielce frá Póllandi.

Útlitið var slæmt hjá Kolstad eftir tíu mínútur í seinni hálfleik, og staðan 26-20 fyrir Kielce. Þá tóku Íslendingarnir til sinna mála og eftir þrjú mörk frá Sigvalda Guðjónssyni, eitt frá Benedikt Óskarssyni og eitt frá Sveini Jóhannssyni, var munurinn kominn niður í eitt mark. Kolstad tókst svo að jafna og þá voru enn þrettán mínútur til leiksloka.

Þessi íslenska upprisa dugði þó ekki til og Kielce fagnaði að lokum eins marks sigri með marki í blálokin. Sigvaldi endaði með fimm mörk en Benedikt og Sveinn með sitt markið hvor.

Fredericia og Kolstad eru því áfram neðst í sínum liðum. Kolstad er með tvö stig eftir fimm leiki en Fredericia er án stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×