„Ég hef óbilandi trú á Íslendingum og ég trúi umfram allt á lausnir en að eyða tíma í að einblína á vandamálin. Ekkert breytist nema breytingar séu gerðar. Ég vil sjá Sjálfstæðisflokkinn endurspegla hagsmuni breiðari fylkingar og hef því ákveðið að bjóða mig fram í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi,“ segir Vala sem tilkynnti um framboð sitt í aðsendri grein á Vísi.

Það lítur því út fyrir að það verði harður slagur um efstu sætin í kjördæminu. Bjarni Benediktsson formaður flokksins leiðir lista flokksins og varaformaður hans, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, hefur gefið út að hún vilji fá 2. sæti á listanum. Það hefur þingmaðurinn og fyrrverandi dómsmálaráðherrann, Jón Gunnarsson einnig gert.

Bryndís Haraldsdóttir sækist einnig eftir sæti á listanum. Þá gaf forseti bæjarstjórnar á Seltjarnarnesi, Ragnhildur Jónsdóttir, það út í gær að hún vilji 4. sætið á listanum. Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi þingmaður flokksins, hefur einnig gefið út að hann vilji það sæti. Þá hefur Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri í Hafnarfirði einnig lýst því yfir að hún vilji 3. sætið á listanum í kjördæminu.
Raðað verður í efstu sætin á listanum og tillagan borin undir kjördæmaráð á morgun, sunnudag, í Valhöll. Eftir það verður kosið um tillöguna. Búast má við fjölmennum fundi í Valhöll á morgun.
Fundir fara einnig fram í kjördæmaráðum flokksins á landsbyggðinni á morgun, sunnudag.