Samninganefndirnar hittust á fyrsta formlegum samningafundi í gær eftir sautján daga hlé. Eitt af stóru málunum í kjaraviðræðunum er krafa kennara um jöfnun launa á milli markaða. Árið 2016 var gengið frá samkomulagi um jöfnun lífeyrisréttinda á almenna og opinbera markaðnum. Kennarar hafa sagt að samhliða jöfnun lífeyrisréttinda átti að jafna laun milli markaða en að ekkert slíkt samkomulag hafi náðst nú átta árum síðan.
Í yfirlýsingu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem birt var fyrr í þessum mánuði er fullyrt að frá árinu 2016 hafi ýmis skref verið stigin til þess að ná samkomulagi. Það sé ekki rétt, eins og Kennarasambandið, hafi haldið fram að ekkert hafi verið gert til að tryggja slíkt samkomulag.
Til að reyna að finna lausn á þessu deilumáli voru meðal annars fengir sérfræðingar frá Jafnlaunastofu til að mæta samningafundinn í Karphúsinu í gær. Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambands Íslands segist tilbúinn til að reyna margt til að hægt sé að semja.
„Verkefnið er að ná kjarasamningi og þegar við erum í kjarasamningi sem við höfum haft mjög skýrt markmið þá auðvitað bara þiggjum við alla hjálp og alla leiðsögn og ráðgjöf sem við þurfum. Við viljum að þetta verði kjarasamningur sem að endar öll kennaraverkföll. Kemur okkur á þann stað sem við viljum vera samhliða öðrum sérfræðingum háskólamenntuðum á almennum markaði og þá er það bara þannig að út frá okkar meginmarkmiði með þessa jöfnun þá erum við tilbúin að skoða allskonar leiðir sem færa okkur að því marki.“