Enski boltinn

Fenginn aftur til Chelsea og spilar ekki í kvöld

Sindri Sverrisson skrifar
Trevoh Chalobah skoraði þrjú mörk fyrir Crystal Palace en snýr nú aftur til Chelsea.
Trevoh Chalobah skoraði þrjú mörk fyrir Crystal Palace en snýr nú aftur til Chelsea. Getty/Sebastian Frej

Chelsea hefur kallað miðvörðinn Trevoh Chalobah heim úr láni hjá Crystal Palace þar sem hann hefur verið í stóru hlutverki í vetur, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Ekki þótti pláss fyrir Chalobah í leikmannahópi Chelsea á fyrri hluta leiktíðarinnar og þessi 25 ára gamli leikmaður var því lánaður til annars Lundúnaliðs, Palace, þar sem hann hefur spilað 14 leiki og skorað þrjú mörk.

Samkvæmt frétt The Athletic hefur Chelsea nú nýtt sér klásúlu í lánssamningnum til þess að kalla Chalobah til baka. Sú ákvörðun tekur strax gildi og Chalobah verður því ekki með Palace gegn Leicester City í kvöld.

Samkvæmt frétt The Athletic telja Chelsea-menn að Chalobah verði mikilvægur hluti af leikmannahópnum það sem eftir lifir leiktíðar. Ákvörðunin um að fá hann til baka var tekinn af stjóranum Enzo Maresca og stjórnendum félagsins, vegna meiðsla leikmanna auk þess sem varnarmenn eru á förum frá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×