Innlent

Skautað fram­hjá ýmsu í til­kynningu mennta­málaráðherra

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hildur Sverrisdóttir er þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Sverrisdóttir er þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Ívar Fannar

Þingflokksformenn minnihlutans hafa krafið forsætisráðherra um svör vegna meintra afskipta menntamálaráðuneytisins í kjaraviðræðum kennara. Ráðuneytið þvertekur fyrir að ráðherra eða annar starfsmaður hafi boðið eða gefið vilyrði um launahækkun til kennara.

Þingflokksformenn minnihlutaflokkanna þriggja sendu í dag fyrirspurn til forsætisráðherra um meint afskipti Ásthildar Lóu Þórsdóttur, menntamálaráðherra, eða starfsmanns á hennar vegum á kjaraviðræðum Kennarasambandsins við ríki og sveitarfélög.

Í tilkynningu frá formönnunum segir að fregnir hermi að einhver úr ráðuneytinu hafi boðið tveggja prósentu launahækkun til viðbótar við það sem þá var á borðinu til að liðka fyrir í deilunni.

„Alla jafna erum við ekki að hlaupa á eftir sögusögnum. En í ljósi alvarleika málsins og hversu sannfærandi þessar fregnir eru, þá ákváðum við að taka eitt skref í einu. Byrja á því að spyrja forsætisráðherra hvort þetta sé rétt, og ef svo hvað henni finnist um það,“ segir Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

Fyrirspurnina hafi átt að bera fram í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag, sem var frestað vegna veðurs. Sé þetta satt, sé það afar alvarlegt.

„Í fyrsta lagi eiga ráðherrar ekki að hafa aðkomu að kjaraviðræðum á milli aðila. Það er prinsipp númer eitt,“ segir Hildur. „Ef þetta er ekki rétt, nú jæja. Þá er það bara gott mál og við höldum áfram að öðrum störfum á þinginu.“

Í kjölfar fyrirspurnarinnar sendi menntamálaráðuneytið frá sér tilkynningu þar sem segir að hvorki ráðherra né starfsmaður á hans vegum hafi boðið eða gefið vilyrði um launahækkun til kennara.

Hildur segir skautað framhjá ýmsu í tilkynningunni og að spurningin hafi verið til forsætisráðherra, ekki menntamálaráðherra.

„Nú skulum við bara heyra hvað forsætisráðherra hefur að segja um hvað gerðist þarna. Tökum svo næstu skref í kjölfarið eftir að þau svör berast,“ segir Hildur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×