Þú ert þegar byrjaður á nýrri vegferð! Út frá spurningunni sé ég að þú ert farinn að átta þig á því að þessi vítahringur byggir ekki á staðreyndum og heldur aftur af þér í samskiptum við konur. Þegar þú trúir því að enginn muni vilja vera með þér er ólíklegt að þú leggir þig fram við að kynnast öðrum sem gerir það að verkum að það sem þú óttast rætist að lokum. Þú endar einn og hefur um leið sannað kenninguna um að enginn vilji þig!
Kynlífið með Aldísi, sálfræðingi og kynlífsráðgjafa, er vikulegur liður á Vísi. Í honum fræðir Aldís lesendur um kynlíf og svarar spurningum frá lesendum. Ef þú vilt senda Aldísi spurningu er hægt að finna spurningaform neðst í greininni.

Stundum er vegferðin sjálf verðmætari en lokaniðurstaðan
Þessi nýja vegferð snýst ekki eingöngu um lokaniðurstöðuna; að kynnast konu, byrjar að stunda kynlíf eða stofna til sambands. Frekar en að einblína á það að finna réttu manneskjuna er mikilvægt að kynnast þér sjálfum, þínum áhugamálum og styrkja þína sjálfsmynd.
Það að njóta þess að vera í félagslegum aðstæðum og kynnast nýju fólki snýst ekki eingöngu um rómantískar tengingar heldur einnig um vellíðan og skemmtileg samskipti við allskonar fólk. Djúp og góð tengsl eru dýrmæt þó svo að þau þróist ekki yfir í kynferðislega eða rómantíska nánd.

Síðan er eitt… hvað þýðir það að vera kynvera? Kynverur eru allskonar og það er eðlilegt! Sum eru mjög kynferðislega virk en önnur ekki. Sum byrja snemma að stunda kynlíf og önnur seint. Sum hugsa mikið um kynlíf en önnur ekki. Sum þurfa mikla tilfinningalega tengingu við einstakling áður en kynferðislegur áhugi kviknar á meðan önnur finna strax fyrir kynferðislegum áhuga. Allt eðlilegt!
En hvað skal gera ef sjálfrætandi spádómur (e. self-fulfilling prophecy) heldur aftur af þér?
Það er svo glatað þegar óhjálplegar hugsanir fá að stýra ferðinni og leiða þig að þeirri niðurstöðu að enginn vilji þig. Frekar en að leyfa þeim að leiða þig að þessari niðurstöðu skaltu skella þér í rannsóknargírinn og gera þína eigin tilraunir! Því fyrr sem þér verður hafnað því fyrr kemstu að því að það er sjaldan eins hrikalegt og þú hafðir ímyndað þér.

Hér eru nokkur ráð sem vonandi nýtast á þessari vegferð:
- Fyrsta skrefið er að gera sér grein fyrir mynstrinu – Átta sig á því að þessi neikvæða hugsun er ekki staðreynd heldur lært viðhorf sem er að hafa áhrif á þína hegðun.
- Endurskrifaðu söguna sem þú segir sjálfum sér – Í stað þess að hugsa „Engin kona mun vilja mig,“ má prófa að hugsa „Ég hef ekki enn upplifað samband, en það þýðir ekki að það sé ómögulegt.“
- Æfa sig í að því að nálgast fólk án þess að láta óttann um höfnun stjórna sér – Fara í aðstæður þar sem þú getur kynnst fólki en án þess að setja pressu á þig um að kynnast einhverri strax. Að upplifa sig verða sjálfsöruggari eða smátt og smátt betri í samskiptum er flottur árangur!
- Hvar er best að kynnast öðrum? Það er þitt rannsóknarefni að komast að því! Eru það stefnumótaöppin? Skrá sig á salsanámskeið? Finna gönguhóp? Hjólahópur? Kór? Fara í sömu sundlaugina nokkrum sinnum í viku? Tónleikar? Listaopnanir? Skrá sig á námskeið? Fara í nám? Sækja mótmæli eða pólitíska viðburði? Skrá sig í framboð fyrir næstu kosningar? Hestamannska? Bíó? Spilahópar? Pöbb quiz? Íþróttaviðburðir? LARP? Cosplay? Í gegnum vinnuna? Áhugamál? Sköpun? Hjálparstarf? Björgunarsveit? Skátana?
- Byggja upp sjálfsöryggi í litlum skrefum – Leyfðu þér að kynnast eigin líkama og kynverund í rólegheitum. Þegar það kemur að kynlífi er sennilega best að vera ekki að þykjast hafa reynslu sem þú hefur ekki. Best er að fara rólega og taka þetta í litlum skrefum. Þú þarft að gefa þér tíma/rými til að kynnast þér sem kynveru og prófa þig áfram án þess að hafa reynslu!
- Leita sér stuðnings ef þörf er á – Tala við fagaðila eða fólk sem skilur þína líðan. Stundum er sjálfsmyndin það föst í þessu mynstri að utanaðkomandi stuðningur getur hjálpað til við að sjá hlutina í nýju ljósi.
Annars minni ég á punktana mín í þessu svari hér, sem nýtast þegar þú ferð af stað að kynnast fólki í raunheimum:
Gangi þér vel <3
Allar greinar eftir Aldísi má finna á sama stað á Vísi.