Íslenski boltinn

Thom­sen mættur aftur í ís­lenska boltann

Sindri Sverrisson skrifar
Tobias Thomsen er mættur á Kópavogsvöll.
Tobias Thomsen er mættur á Kópavogsvöll. Breiðablik

Framherjinn Tobias Thomsen hefur ákveðið að snúa aftur í íslenska fótboltann og nú með Íslandsmeisturum Breiðabliks.

Daninn þekkir vel til hér á landi eftir að hafa spilað með KR og Val á árunum 2017-20. Hann varð Íslandsmeistari með báðum liðum og skoraði samtals 52 mörk í 109 leikjum í öllum skráðum leikjum fyrir liðin á vef KSÍ. Þar af voru 18 mörk í 63 leikjum í efstu deild hér á landi.

Thomsen, sem er 32 ára, mætir í Kópavoginn frá portúgalska félaginu Torreense þar sem hann hefur verið undanfarna mánuði og hann skoraði þrjú mörk fyrir liðið í þrettán leikjum í portúgölsku B-deildinni. 

Áður var Thomsen iðinn við að skora mörk fyrir Hvidovre í efstu og næstefstu deild Danmerkur.

Rúmur mánuður er í að Íslandsmótið hefjist en titilvörn Blika hefst á leik við nýliða Aftureldingar á Kópavogsvelli 5. apríl. Blikar spila við bikarmeistara KA í Meistarakeppni KSÍ 30. mars og eiga mögulega eftir að spila í undanúrslitum og úrslitum Lengjubikarsins en það gera þeir ekki ef Fylkir vinnur Njarðvík á miðvikudagskvöld, í riðli Blika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×