Menning

Til­nefningar til ís­lensku myndlistarverðlaunanna

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Íslensku myndlistarverðlaunin tilkynntu í dag þau sem tilnefnd eru sem Myndlistarmaður ársins og til hvatningaverðlauna.
Íslensku myndlistarverðlaunin tilkynntu í dag þau sem tilnefnd eru sem Myndlistarmaður ársins og til hvatningaverðlauna. SAMSETT

Íslensku myndlistarverðlaunin verða afhent 20. mars við hátíðlega athöfn í Iðnó. Verðlaunin eru í þremur flokkum, Myndlistarmaður ársins, Hvatningarverðlaun og heiðursverðlaun fyrir ævistarf. Sjö myndlistarmenn voru í dag tilnefndir.

Tilnefningar fyrir Myndlistarmann ársins:

Jónsi, 01.06.2024 – 08.09.2024, Listasafn Reykjavíkur, Flóð

Jónsi er tilnefndur sem myndlistarmaður ársins. Paul Salveson

„Jón Þór Birgisson, Jónsi (f. 1975), er tilnefndur fyrir sýninguna Flóð, sem var sett upp í þremur sölum í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi. Jónsi er fyrst og fremst þekktur fyrir afrek sín á sviði tónlistar en síðustu tvo áratugi hefur hann unnið að fjölbreyttum listrænum verkefnum og verið virkur þátttakandi í sýningarhaldi þvert á miðla. 

Mat dómnefndar er að Jónsi hafi sterka hæfni til að skapa upplifanir sem vekja áhorfendur til umhugsunar um mannlegt hlutverk innan náttúrulegrar hringrásar. Sýningin Flóð fangar bæði sjónrænan og tilfinningalegan kraft náttúruafla og sýnir hvernig listin getur miðlað dýpri skilningi á þeim kröftum sem stjórna lífi okkar.“

Jónsi: Flóð, 2024. Listasafn Reykjavíkur – Hafnarhús.Vigfús Birgisson

Una Björg Magnúsdóttir, Ásmundarsalur, 26.10.2024 – 20.11.2024, Gulari gulur

Una Björg er tilnefnd sem myndlistarmaður ársins. Leifur Wilberg Orrason

„Una Björg Magnúsdóttir (f. 1990) er tilnefnd fyrir sýninguna Gulari Gulur í Ásmundarsal. Með sýningunni staðfestir hún að hún er listamaður með afar persónulega sýn sem hefur þróað fjölbreytt og áhugavert myndmál. 

Sýningin Lost Manuals í Künstlerhaus Bethanien í Berlín staðfestir þetta frekar. Hún lauk BA-prófi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2014 og MA-prófi í myndlist frá ÉGAL í Swiss árið 2018. Una Björg hefur verið áberandi í sýningarhaldi síðustu ár, bæði hér á landi og víða í Evrópu.

Mat dómnefndar er að með sýningunni Gulari gulur takist Unu Björgu Magnúsdóttur að opna á nýja sýn á daglega tilveru okkar með vel útfærðri sýningu. Útkoman var heillandi heimur sem var í senn hversdagslegur og þversagnakenndur, þar sem áhorfandanum var boðið upp á ljóðræna úrvinnslu úr eigin hugarheimi.“

Una Björg Magnúsdóttir: Gulari gulur, 2024. Ásmundarsalur.Vigfús Birgisson

Pétur Thomsen, Hafnarborg, 09.11.2024 – 16.02.2025, Landnám

Pétur Thomsen er tilnefndur sem myndlistarmaður ársins. Sigurður Thomsen

„Pétur Thomsen (f. 1973) er tilnefndur fyrir sýninguna Landnám í Hafnarborg, menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar. Samband mannfólks við náttúruna hefur verið megininntak í ljósmyndaverkum hans þar sem finna má vitnisburð um ágang mannsins á umhverfi sitt. 

Pétur lauk MFA-prófi í ljósmyndun frá École nationale supérieure de la photographie í Arles, Frakklandi, árið 2004. Hann hefur hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín og verið áberandi þátttakandi í sýningarhaldi og fjölbreyttum verkefnum hér á landi og erlendis.

Mat dómnefndar er að Landnám sé einstaklega vel útfærð sýning, frá framkvæmd til framsetningar verkanna og að í henni megi skynja vitund um náttúruna og umhyggju fyrir henni. Með djúpri þekkingu á ljósmyndamiðlinum fangar Pétur Thomsen í verkum sínum inntak og hugmyndafræði sem á sýningunni umhverfist í samtal við áhorfandann á áhrifaríkan hátt.“

Pétur Thomsen: Landnám, 2024. Hafnarborg.Pétur Thomsen

Þóra Sigurðardóttir, Listasafn Íslands, 13.04.2024 – 22.09.2024, Járn, hör, kol og kalk

Þóra er tilnefnd sem myndlistarmaður ársins. Silja Rut Thorlacius

Þóra Sigurðardóttir (f. 1954) er tilnefnd fyrir sýninguna Járn, hör, kol og kalk í Listasafni Íslands. Skoðun á nánasta umhverfi og endurtúlkun á hversdagslegum hlutum og breytilegum efnisheimi er leiðarstef í list hennar. 

Þóra á að baki langan feril og fjölda einka- og samsýninga bæði innanlands og utan. Hún útskrifaðist úr kennaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1979 og úr grafíkdeild skólans árið 1981. Hún lauk framhaldsnámi árið 1991 í Danmörku með áherslu á rými, skúlptúr og málverk. Samhliða sýningunni kom út vegleg samnefnd bók um verk Þóru Sigurðardóttur.

Mat dómnefndar er að sýningin Járn, hör, kol og kalk endurspegli á áhrifaríkan hátt athugun listakonunnar á efnisheimi hversdagslegra hluta og sýni mikla næmni fyrir samspili rýmis og teikningar. Sýningin túlkar á sannfærandi hátt mismunandi sjónarhorn hversdagslífs og samfélags.“

Þóra Sigurðardóttir: Járn, hör, kol og kalk, 2024. Listasafn Íslands. Studio Bua

Tilnefningar fyrir Hvatningarverðlaunin: 

Helena Margrét Jónsdóttir

Helena Margrét er tilnefnd til Hvatningaverðlaunanna. Helena Margrét Jónsdóttir

„Helena Margrét Jónsdóttir (f. 1996) er tilnefnd til Hvatningarverðlauna Íslensku myndlistarverðlaunanna 2025 en hún hefur markað sér sérstöðu meðal ungra listamanna með málverkum af hversdagslegum fyrirbærum sem hún setur í óhefðbundið samhengi. 

Helena Margrét útskrifaðist með BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2019 eftir að hafa numið myndlist við Konunglega listaháskólann í Haag, Hollandi, og Myndlistaskólann í Reykjavík.

Mat dómnefndar er að málverk Helenu Margrétar Jónsdóttur séu forvitnileg og slái áhugaverðan tón í myndlistinni. Verk hennar eru vönduð og kyrrlát en á sama tíma með nýstárlegan undirtón sem virkjar ímyndunaraflið og færir áhorfandann inn í draumkenndan hugarheim. Helena Margrét sviptir hulunni af hefðbundinni birtingarmynd hversdagslegra hluta í málverki á afar sannfærandi hátt.“

Helena Margrét Jónsdóttir: Hrímuð krónublöð, 2024.Helena Margrét Jónsdóttir

Sóley Ragnarsdóttir

Sóley er tilnefnd til Hvatningaverðlaunanna.Neven Allgeier

„Sóley Ragnarsdóttir (f. 1991) er tilnefnd til Hvatningarverðlauna Íslensku myndlistarverðlaunanna en hún vakti sérstaka athygli með sýningunni Hjartadrottningunni sem haldin var í Gerðarsafni og hún tileinkaði ömmu sinni. Sóley sem fædd er hér á Íslandi hefur lengst af búið í nágrenni við sjávarsíðuna í Sønderborg á Jótlandi. 

Hún brautskráðist með meistaragráðu frá Städelschule í Frankfurt 2019. Hjartadrottningin er fyrsta einkasýning hennar hér á landi en hún hefur áður haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum í Danmörku og Þýskalandi.

Mat dómnefndar er að Sóley Ragnarsdóttir hafi slegið ferskan tón með litskrúðugri innsetningu úr skrautlega flúruðum veggverkum sem að megninu til voru unnin úr servíettusöfnum sem tilheyra reynsluheimi margra kvenna. Einnig skúlptúrum úr skeljum, kuðungum og brotum úr ýmsum forgengilegum fjöldaframleiddum smáhlutum úr fjörunni. 

Hún hafi með efnisnotkun, litskrúði og kvenlægri nálgun skapað sér sérstöðu. Marglaga skrautleg feminísk verk hennar séu hressilegt mótvægi við margt af því sem verið hefur sett upp í sýningarsölum undanfarin ár.“

Sóley Ragnarsdóttir : Hjartadrottning, 2024. Gerðarsafn.Vigfús Birgisson

Vikram Pradhan

Vikram er tilnefndur til Hvatningarverðlaunanna.Kaja Sigvalda

„Vikram Pradhan (f. 1997) er tilnefndur til Hvatningarverðlauna Íslensku myndlistarverðlaunanna fyrir eftirtektarvert framlag sitt til myndlistar. Hann stundaði nám við Srishti-háskólann í Bangalore á Indlandi og lauk síðan meistaragráðu frá hönnunardeild Listaháskóla Íslands árið 2021. 

Vikram hefur verið virkur þátttakandi í sýningarhaldi hér á landi, auk þess sem hann hefur sýnt verk sín í V&A Museum í London og á Indlandi.

Mat dómnefndar er að í verkum Vikrams Pradhan verði til eftirtektarverður snertiflötur þar sem hugmyndafræði vísindanna mætir hinu óáþreifanlega. Hann fléttar mannlega þætti inn í listsköpun sína og vekur þannig áleitnar spurningar um skynjun einstaklingsins og mannlega tilvist. 

Verk hans einkennast af tilraunakenndri nálgun í kvik- og ljósmyndun, þar sem hann beitir persónulegri hugmyndafræði með sterkri listrænni sýn.“

Vikram Pradhan: Lucidity of Dreams, 2022.Vikram Pradhan





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.