Íslenski boltinn

QPR vildi Þorra en Fram sagði nei

Sindri Sverrisson skrifar
Þorri Stefán Þorbjörnsson nefbrotnaði snemma á síðustu leiktíð en lét það ekki stöðva sig og spilaði með grímu.
Þorri Stefán Þorbjörnsson nefbrotnaði snemma á síðustu leiktíð en lét það ekki stöðva sig og spilaði með grímu. vísir/Anton

Enska knattspyrnufélagið Queens Park Rangers, sem leikur í næstefstu deild, gerði tilboð í miðvörðinn unga Þorra Stefán Þorbjörnsson í vetur en Fram hafnaði tilboðinu.

Frá þessu greinir Fótbolti.net og hefur eftir Sigurði Hrannari Björnssyni, formanni meistaraflokksráðs karla hjá Fram, að tilboð hafi borist frá QPR í desember.

Sigurður segir Fram hafa sent móttilboð og liðin átt í viðræðum næstu vikurnar, auk þess sem QPR bauð Þorra út til að sýna honum aðstæður. Á endanum hafi hins vegar ekki náðst samkomulag um kaupverð.

Sigurður vildi þó ekki fara út í það hvort og þá hve miklu hefði munað á að félögin næðu saman. Það væri hins vegar ljóst að aðeins tímaspursmál væri hvenær Þorri færi utan í atvinnumennsku.

Þorri er 18 ára, örvfættur miðvörður sem er uppalinn hjá Fram en fór til FH í ársbyrjun 2022. Þaðan fór hann svo til Lyngby í Danmörku 2023 en Þorri sneri svo aftur til Fram fyrir síðustu leiktíð og lék sitt fyrsta heila tímabil í efstu deild, alls 25 leiki.

Þorri er sonur Þorbjörns Atla Sveinssonar og Ragnheiðar Arnardóttur. Þorbjörn Atli spilaði með Fram í kringum aldamótin en lék fremst á vellinum, öfugt við soninn sem spilar í vörninni.

QPR lék síðast í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2014-15 en hefur síðan þá verið í næstefstu deild. Liðið er sem stendur í 14. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×