Íslenski boltinn

Níu mörk þegar KR vann ÍBV

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
KR-ingar fagna einu sex marka sinna gegn Eyjamönnum.
KR-ingar fagna einu sex marka sinna gegn Eyjamönnum. vísir/lýður

Ekki vantaði mörkin þegar KR sigraði ÍBV í riðli 4 í Lengjubikar karla í fótbolta í dag. Lokatölur 6-3, KR-ingum í vil.

KR hefur unnið alla fjóra leiki sína í riðlinum með markatölunni 18-5 og er komið langleiðina í undanúrslit Lengjubikarsins.

Staðan var 2-1 í hálfleik, KR-ingum í vil. Eiður Gauti Sæbjörnsson og Jóhannes Kristinn Bjarnason komu heimamönnum í 2-0 en Bjarki Björn Gunnarsson minnkaði muninn fyrir Eyjamenn úr vítaspyrnu.

ÍBV jafnaði metin á 51. mínútu en Eiður Gauti kom KR aftur yfir tveimur mínútum síðar. Atli Sigurjónsson jók muninn í 4-2 og Eyjamenn skoruðu svo sjálfsmark.

Gestirnir minnkuðu muninn í 5-3 en Stefán Árni Geirsson skoraði sjötta mark heimamanna skömmu fyrir leikslok.

ÍBV er með þrjú stig í 4. sæti riðils 4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×