Leiksigur Ladda Símon Birgisson skrifar 10. mars 2025 08:00 Laddi, Villi Neto og Vala Kristín á sviði Borgarleikhússins. Borgarleikhúsið Hver er Laddi? Hver er maðurinn á bak við grímuna? Á bak við persónurnar sem eru löngu orðin hluti af þjóðarvitund Íslendinga? Þetta eru nokkrar af þeim spurningum sem stórsýningin Þetta er Laddi reynir að svara í gegnum leik, dans, söng og grín. Þetta er Laddi - Borgarleikhúsið Frumsýning. 8. mars 2025 Höfundur: Ólafur Egill Egilsson og Vala Kristín Eiríksdóttir. Leikstjóri: Ólafur Egill. Leikmynd: Eva Signý Berger. Tónlistarstjórn: Jón Ólafsson. Leikarar: Laddi, Ásthildur Úa Sigurðardóttir, Björgvin Franz Gíslason, Halldór Gylfason, Birna Pétursdóttir o.fl. Hver er Laddi? Hver er maðurinn á bak við grímuna? Á bak við persónurnar sem eru löngu orðin hluti af þjóðarvitund Íslendinga? Þetta eru nokkrar af þeim spurningum sem stórsýningin Þetta er Laddi reynir að svara í gegnum leik, dans, söng og grín. Afleiðingin er einskonar tímavél þar sem áhorfendur ferðast gegnum merkilegt tímabil í sögu þjóðarinnar og við kynnumst ekki bara Ladda heldur líka okkur sjálfum. Þetta er hugrökk sýning, full af gleði en líka alvöru. Mitt í hringiðunni er svo Laddi sjálfur sem gerir það sem fæstir bjuggust kannski við að myndi gerast – hann fellir grímuna og úr verður eitt eftirminnilegasta leikhúskvöld sem ég upplifað í langan tíma. Eftirminnilegir tímar Fyrir okkur sem munum eftir níunda áratugnum hefst sýningin á kunnuglegum slóðum - í sófanum hjá Hemma Gunn. Veislustjóri kvöldsins, sem Vala Kristín Eiríksdóttir lék frábærlega, tekur á móti Ladda í sófanum og auðvitað dúkkar Dengsi upp (Vilhelm Netó) og reynir að stela senunni. Við kynnumst æskuárum Ladda í sveitinni í gegnum söng Eiríks Fjalars (Hákon Jóhannesson) og Halldór Gylfason á stórleik sem Marteinn Mosdal. Sem áhorfandi hefur maður varla hugmynd um hvert kvöldið stefnir, það eru söngnúmer, konfettisprengjur, fljúgandi strumpur í loftinu og einn á fætur öðrum týnast karakterar Ladda inn á sviðið. Heilsubælið í Gervahverfi kom að sjálfsögðu við sögu í sýningunni. Borgarleikhúsið Fljótlega finnur kvöldið sér farveg. Sýningin skiptist upp í kafla þar sem mismunandi tímabil eru tekin fyrir í ævi Ladda. Hér er þræðinum úr ævisögu Ladda eftir Þráin Bertelsson sem kom út árið 1991 fylgt nokkuð samviskusamlega – við kynnumst hljómsveitinni Faxa, sem Laddi og Halli bróðir hans spiluðu saman í og ætluðu að meika það á erlendri grundu. Eins og allt gott íslenskt meik á þessum tíma tókst það ekki og þeir bræður lenda í vinnu á leikmunadeild sjónvarpsins. Þar tekur grínið við og frægðarsólin rís hratt. Stiklað er á stóru í plötuútgáfu Ladda og klassískir smellir eins og Austurstræti og Royi Rogers fá salinn til að taka undir í söng. Einn af þeim leikurum sem á stórleik í þessum hluta sýningarinnar er Björgvin Franz Gíslason. Það verður að hrósa honum sérstaklega. Hann hefur ótrúlega útgeislun og hefur salinn í lófa sér í hlutverki Elsu Lund – hliðarsjálfi Ladda sem er holdgervingur tíma þar sem reglurnar voru aðrar og grínið groddalegra en í dag. Aftur tekur nostalgían völd þegar rifjaðar eru upp sólarstrandaferðir Íslendinga (erum við samt ekki enn full að skandalísera í útlöndum spyr kynnirinn salinn). Það jafnast ekkert á við það að þruma sér í gott sólbað. Og salurinn tók vel undir í laginu Búkolla og fleiri smellum. Laddi á sviðinu Fyrstu vísbendingarnar um að höfundar sýningarinnar ætli sér þó ekki að gera bara enn eina afmælissýninguna um Ladda koma þó strax fyrir hlé. Á einhverjum tímapunkti leitar Laddi til Gunnars Þórðarsonar með hugmyndir um að gera alvöru plötu en er hvattur til að halda sér bara við grínið. Þetta er vel skrifuð sena þar sem Laddi gerir sjálfur lítið úr höfnuninni en kynnirinn er viss um að þarna sé um mikilvægt augnablik að ræða – listamaðurinn Laddi hafi orðið undir í baráttunni við grínistann. Þessi átök verða svo enn viðameiri eftir hlé. Í fyrstu var ég ekki svo viss um hversu góð hugmynd það væri að hafa Ladda sjálfan á sviðinu. Væri hægt að fjalla um Ladda á beinskeyttan hátt ef hann er alltaf á svæðinu? Myndi nærvera hans á sviðinu breyta sýningunni í einhverskonar lofgjörð um Ladda og persónugallerí hans? Þær áhyggjur fuku út um gluggann eftir hlé því þá er kastljósinu svo sannarlega beint að Ladda sjálfum. Fyrst vil ég nefna stórkostlega senu þar sem ósmekklegt grín Ladda er gert upp. Talinn er upp langur listi af fórnarlömbum Ladda sem mótmælir þó þegar hann er sagður hafa gert grín að dvergum og segir að um álfa hafi verið að ræða. Tvö lög standa þó upp úr á hinum langa lista ósmekklegra atriða en það er annars vegar lagið Of feit fyrir mig og hinn svokallaði Grínverji Ladda sem kom fram í flugeldaauglýsingum björgunarsveitanna á níunda áratugnum. Í stað þess að sópa lögunum undir teppið er Of feit fyrir mig flutt í öllu sínu veldi og kabarett mærin Margrét Erla Maack á magnaða innkomu og snýr merkingu lagsins á hvolf. Þessi sena, sem fjallar í raun um hina svokölluðu slaufunarmenningu, er snilldarlega vel skrifuð og verður að gefa höfundum verksins hrós fyrir að hafa þorað að fara þessa leið. Í hefðbundinni afmælissýningu hefði verið auðvelt að afskrifa þessi lög og þetta grín sem barn síns tíma en með því að takast á við grínið verður til samtal á sviðinu sem fær mann til að hugsa og setja hlutina í samhengi. Borgarleikhúsið Einn á barnum Eftir hinn ævintýralega uppgang Ladda – plötur sem slógu í gegn, kabarett sýningar sem gengu fyrir fullu húsi og velgengni í sjónvarpi – tekur við nýtt tímabil hjá Ladda. Hann opnar sinn eigin bar – nefndan í höfuðið á breska stórleikaranum Sir Laurence Olivier og kynnist nýrri konu. Ladda líður vel á barnum, byrjar að gera tilraunir með uppistand og allt virðist leika í lyndi – eða hvað? Það er á þessu augnabliki í sýningunni sem mér fannst hún breyta um kúrs og það er að miklu leyti stórleik Völu Kristínar í hlutverki kynnisins að þakka. Hún er ekki sátt við útskýringar Ladda um allt gangi vel. Bendir honum á að hann hafi ekki gefið út plötu í nánast tvo áratugi og spyr hvort áfengið hafi verið raunverulegt vandamál. Nú er allt í einu orðið óþægilegt fyrir Ladda að vera á sviðinu – sýningin er hætt að þjónusta hann, lofsyngja hann, hefja karaktera hans til skýjanna og spurningarnar orðnar óþægilega nærgöngular. Og eins og alltaf flýr Laddi í grínið – það er auðveldara að grínast með alkóhólisma heldur en að ræða í alvöru. Það verður okkar áhorfenda að lesa á milli línanna og fylla upp í eyðurnar. Erfið barnæska Þessi atriði eru þó aðeins upptakturinn af því sem koma skal því sýningin tekur enn eina u-beygjuna þegar kynnirinn beinir aftur kastljósinu að æsku Ladda. Í þetta skiptið er eru engir karakterar mættir til að leika æskuárin á gamansaman hátt eins og fyrir hlé heldur kemur það í hlut Ladda að segja sína eigin sögu. Og sagan sem við áhorfendur fáum loks að heyra beint frá Ladda sjálfum – útskýring á því hvernig grínið varð samofinn hluti af persónuleika hans, flótti undan fátækt, uppnefnum, einelti og erfiðum heimilisaðstæðum er svo átakanleg og sönn að ég fann tárin streyma niður kinnarnar. Það þarf hugrekki til að standa á sviði og berskjalda sig frammi fyrir áhorfendum, tala um það hvernig var að alast upp án föður, að vita hvort það yrðu jólagjafir undir trénu. Einhvern veginn bjóst ég ekki við þessu á skemmtileiknum Ladda. Þessi hluti verksins sat í mér eftir að sýningunni lauk. Og gerir enn. Líklega er þó lokaatriði sýningarinnar; einleikur Ladda sem stendur frammi fyrir okkur áhorfendum án allra gerva, án búnings eða props og fer í gegnum hverja einustu persónu úr sínu risavaxna persónugalleríi með röddinni einni saman það sem stóð hæst á þessu eftirminnilega kvöldi. Svona gera bara meistarar á borð við Chaplin, Andy Kaufmann, Jim Carrey og okkar eini sanni… Laddi. Sigur Borgarleikhússins Það er ekkert lítið afrek sem hefur verið unnið með þessari sýningu. Höfundum verksins tekst að búa til leikhús sem uppfyllir bæði væntingar manns en snýr einnig upp á þær. Það eru spennandi leikhúslegar pælingar í verkinu, sviðsmyndin kemur sífellt á óvart og öll umgjörð, búningar, ljós og leikmunir eru upp á tíu. Það verður líka að hrósa leikhópnum sem er ótrúlega þéttur. Hvort sem það er Ásthildur Úa, Katla Margrét, Birna Pétursdóttir eða aðrir í hópnum, þau standa sig öll vel og hafa gert í þeim sýningum sem ég hef séð í Borgarleikhúsinu í vetur. Ég vona að stjórn leikhússins og næsti borgarleikhússtjóri sjái sér fært að leiðrétta laun þessara frábæru listamanna og hækka þau til samræmis við aðra starfsmenn hússins – því án leikara eru leikhúsin ekkert nema tóm svið. Niðurstaða Þetta er Laddi er stórkostlegt leikrit þar sem leikarar Borgarleikhússins fara á kostum í verki þar sem öllu er tjaldað til og engum hlíft. Leikritið spilar á öllum tilfinningaskalanum og er óhætt að mæla með fyrir unga jafnt sem aldna. Ein besta sýning ársins án vafa. Leikhús Menning Gagnrýni Símonar Birgissonar Mest lesið Ástin spyr ekki um aldur hjá þessum pörum Lífið Tapsár Måns svarar gagnrýnendum fullum hálsi Lífið Leiksigur Ladda Gagnrýni Dóttir Annýjar og Heiðars nefnd í dag Lífið Lá ekki á óvinsælum skoðunum sínum Lífið Ungfrú Ísland snýst ekki um fallegustu stelpuna Lífið Stjörnulífið: Skvísuferðir, skvísulæti og ljóskureisa Lífið „Sagði börnunum að vondur maður hefði meitt mömmu“ Áskorun „Þetta er meiri háttar draumur að rætast” Lífið „Hvað er Gísli Marteinn gamall?“ Lífið Fleiri fréttir Leiksigur Ladda Elísabet fær uppreist æru Tveggja barna miðaldra móðir sem er sjúk í strákinn Ævar vísindamaður í miðaldrakrísu Dansandi lögreglukór og fangarnir í Sniglabandinu Fyrirsjáanlegt fjölskyldudrama Bob og Robbie í bobba Fleetwood Mac: Þegar eftirlíkingin verður betri en raunveruleikinn Sjá meira
Þetta er Laddi - Borgarleikhúsið Frumsýning. 8. mars 2025 Höfundur: Ólafur Egill Egilsson og Vala Kristín Eiríksdóttir. Leikstjóri: Ólafur Egill. Leikmynd: Eva Signý Berger. Tónlistarstjórn: Jón Ólafsson. Leikarar: Laddi, Ásthildur Úa Sigurðardóttir, Björgvin Franz Gíslason, Halldór Gylfason, Birna Pétursdóttir o.fl. Hver er Laddi? Hver er maðurinn á bak við grímuna? Á bak við persónurnar sem eru löngu orðin hluti af þjóðarvitund Íslendinga? Þetta eru nokkrar af þeim spurningum sem stórsýningin Þetta er Laddi reynir að svara í gegnum leik, dans, söng og grín. Afleiðingin er einskonar tímavél þar sem áhorfendur ferðast gegnum merkilegt tímabil í sögu þjóðarinnar og við kynnumst ekki bara Ladda heldur líka okkur sjálfum. Þetta er hugrökk sýning, full af gleði en líka alvöru. Mitt í hringiðunni er svo Laddi sjálfur sem gerir það sem fæstir bjuggust kannski við að myndi gerast – hann fellir grímuna og úr verður eitt eftirminnilegasta leikhúskvöld sem ég upplifað í langan tíma. Eftirminnilegir tímar Fyrir okkur sem munum eftir níunda áratugnum hefst sýningin á kunnuglegum slóðum - í sófanum hjá Hemma Gunn. Veislustjóri kvöldsins, sem Vala Kristín Eiríksdóttir lék frábærlega, tekur á móti Ladda í sófanum og auðvitað dúkkar Dengsi upp (Vilhelm Netó) og reynir að stela senunni. Við kynnumst æskuárum Ladda í sveitinni í gegnum söng Eiríks Fjalars (Hákon Jóhannesson) og Halldór Gylfason á stórleik sem Marteinn Mosdal. Sem áhorfandi hefur maður varla hugmynd um hvert kvöldið stefnir, það eru söngnúmer, konfettisprengjur, fljúgandi strumpur í loftinu og einn á fætur öðrum týnast karakterar Ladda inn á sviðið. Heilsubælið í Gervahverfi kom að sjálfsögðu við sögu í sýningunni. Borgarleikhúsið Fljótlega finnur kvöldið sér farveg. Sýningin skiptist upp í kafla þar sem mismunandi tímabil eru tekin fyrir í ævi Ladda. Hér er þræðinum úr ævisögu Ladda eftir Þráin Bertelsson sem kom út árið 1991 fylgt nokkuð samviskusamlega – við kynnumst hljómsveitinni Faxa, sem Laddi og Halli bróðir hans spiluðu saman í og ætluðu að meika það á erlendri grundu. Eins og allt gott íslenskt meik á þessum tíma tókst það ekki og þeir bræður lenda í vinnu á leikmunadeild sjónvarpsins. Þar tekur grínið við og frægðarsólin rís hratt. Stiklað er á stóru í plötuútgáfu Ladda og klassískir smellir eins og Austurstræti og Royi Rogers fá salinn til að taka undir í söng. Einn af þeim leikurum sem á stórleik í þessum hluta sýningarinnar er Björgvin Franz Gíslason. Það verður að hrósa honum sérstaklega. Hann hefur ótrúlega útgeislun og hefur salinn í lófa sér í hlutverki Elsu Lund – hliðarsjálfi Ladda sem er holdgervingur tíma þar sem reglurnar voru aðrar og grínið groddalegra en í dag. Aftur tekur nostalgían völd þegar rifjaðar eru upp sólarstrandaferðir Íslendinga (erum við samt ekki enn full að skandalísera í útlöndum spyr kynnirinn salinn). Það jafnast ekkert á við það að þruma sér í gott sólbað. Og salurinn tók vel undir í laginu Búkolla og fleiri smellum. Laddi á sviðinu Fyrstu vísbendingarnar um að höfundar sýningarinnar ætli sér þó ekki að gera bara enn eina afmælissýninguna um Ladda koma þó strax fyrir hlé. Á einhverjum tímapunkti leitar Laddi til Gunnars Þórðarsonar með hugmyndir um að gera alvöru plötu en er hvattur til að halda sér bara við grínið. Þetta er vel skrifuð sena þar sem Laddi gerir sjálfur lítið úr höfnuninni en kynnirinn er viss um að þarna sé um mikilvægt augnablik að ræða – listamaðurinn Laddi hafi orðið undir í baráttunni við grínistann. Þessi átök verða svo enn viðameiri eftir hlé. Í fyrstu var ég ekki svo viss um hversu góð hugmynd það væri að hafa Ladda sjálfan á sviðinu. Væri hægt að fjalla um Ladda á beinskeyttan hátt ef hann er alltaf á svæðinu? Myndi nærvera hans á sviðinu breyta sýningunni í einhverskonar lofgjörð um Ladda og persónugallerí hans? Þær áhyggjur fuku út um gluggann eftir hlé því þá er kastljósinu svo sannarlega beint að Ladda sjálfum. Fyrst vil ég nefna stórkostlega senu þar sem ósmekklegt grín Ladda er gert upp. Talinn er upp langur listi af fórnarlömbum Ladda sem mótmælir þó þegar hann er sagður hafa gert grín að dvergum og segir að um álfa hafi verið að ræða. Tvö lög standa þó upp úr á hinum langa lista ósmekklegra atriða en það er annars vegar lagið Of feit fyrir mig og hinn svokallaði Grínverji Ladda sem kom fram í flugeldaauglýsingum björgunarsveitanna á níunda áratugnum. Í stað þess að sópa lögunum undir teppið er Of feit fyrir mig flutt í öllu sínu veldi og kabarett mærin Margrét Erla Maack á magnaða innkomu og snýr merkingu lagsins á hvolf. Þessi sena, sem fjallar í raun um hina svokölluðu slaufunarmenningu, er snilldarlega vel skrifuð og verður að gefa höfundum verksins hrós fyrir að hafa þorað að fara þessa leið. Í hefðbundinni afmælissýningu hefði verið auðvelt að afskrifa þessi lög og þetta grín sem barn síns tíma en með því að takast á við grínið verður til samtal á sviðinu sem fær mann til að hugsa og setja hlutina í samhengi. Borgarleikhúsið Einn á barnum Eftir hinn ævintýralega uppgang Ladda – plötur sem slógu í gegn, kabarett sýningar sem gengu fyrir fullu húsi og velgengni í sjónvarpi – tekur við nýtt tímabil hjá Ladda. Hann opnar sinn eigin bar – nefndan í höfuðið á breska stórleikaranum Sir Laurence Olivier og kynnist nýrri konu. Ladda líður vel á barnum, byrjar að gera tilraunir með uppistand og allt virðist leika í lyndi – eða hvað? Það er á þessu augnabliki í sýningunni sem mér fannst hún breyta um kúrs og það er að miklu leyti stórleik Völu Kristínar í hlutverki kynnisins að þakka. Hún er ekki sátt við útskýringar Ladda um allt gangi vel. Bendir honum á að hann hafi ekki gefið út plötu í nánast tvo áratugi og spyr hvort áfengið hafi verið raunverulegt vandamál. Nú er allt í einu orðið óþægilegt fyrir Ladda að vera á sviðinu – sýningin er hætt að þjónusta hann, lofsyngja hann, hefja karaktera hans til skýjanna og spurningarnar orðnar óþægilega nærgöngular. Og eins og alltaf flýr Laddi í grínið – það er auðveldara að grínast með alkóhólisma heldur en að ræða í alvöru. Það verður okkar áhorfenda að lesa á milli línanna og fylla upp í eyðurnar. Erfið barnæska Þessi atriði eru þó aðeins upptakturinn af því sem koma skal því sýningin tekur enn eina u-beygjuna þegar kynnirinn beinir aftur kastljósinu að æsku Ladda. Í þetta skiptið er eru engir karakterar mættir til að leika æskuárin á gamansaman hátt eins og fyrir hlé heldur kemur það í hlut Ladda að segja sína eigin sögu. Og sagan sem við áhorfendur fáum loks að heyra beint frá Ladda sjálfum – útskýring á því hvernig grínið varð samofinn hluti af persónuleika hans, flótti undan fátækt, uppnefnum, einelti og erfiðum heimilisaðstæðum er svo átakanleg og sönn að ég fann tárin streyma niður kinnarnar. Það þarf hugrekki til að standa á sviði og berskjalda sig frammi fyrir áhorfendum, tala um það hvernig var að alast upp án föður, að vita hvort það yrðu jólagjafir undir trénu. Einhvern veginn bjóst ég ekki við þessu á skemmtileiknum Ladda. Þessi hluti verksins sat í mér eftir að sýningunni lauk. Og gerir enn. Líklega er þó lokaatriði sýningarinnar; einleikur Ladda sem stendur frammi fyrir okkur áhorfendum án allra gerva, án búnings eða props og fer í gegnum hverja einustu persónu úr sínu risavaxna persónugalleríi með röddinni einni saman það sem stóð hæst á þessu eftirminnilega kvöldi. Svona gera bara meistarar á borð við Chaplin, Andy Kaufmann, Jim Carrey og okkar eini sanni… Laddi. Sigur Borgarleikhússins Það er ekkert lítið afrek sem hefur verið unnið með þessari sýningu. Höfundum verksins tekst að búa til leikhús sem uppfyllir bæði væntingar manns en snýr einnig upp á þær. Það eru spennandi leikhúslegar pælingar í verkinu, sviðsmyndin kemur sífellt á óvart og öll umgjörð, búningar, ljós og leikmunir eru upp á tíu. Það verður líka að hrósa leikhópnum sem er ótrúlega þéttur. Hvort sem það er Ásthildur Úa, Katla Margrét, Birna Pétursdóttir eða aðrir í hópnum, þau standa sig öll vel og hafa gert í þeim sýningum sem ég hef séð í Borgarleikhúsinu í vetur. Ég vona að stjórn leikhússins og næsti borgarleikhússtjóri sjái sér fært að leiðrétta laun þessara frábæru listamanna og hækka þau til samræmis við aðra starfsmenn hússins – því án leikara eru leikhúsin ekkert nema tóm svið. Niðurstaða Þetta er Laddi er stórkostlegt leikrit þar sem leikarar Borgarleikhússins fara á kostum í verki þar sem öllu er tjaldað til og engum hlíft. Leikritið spilar á öllum tilfinningaskalanum og er óhætt að mæla með fyrir unga jafnt sem aldna. Ein besta sýning ársins án vafa.
Leikhús Menning Gagnrýni Símonar Birgissonar Mest lesið Ástin spyr ekki um aldur hjá þessum pörum Lífið Tapsár Måns svarar gagnrýnendum fullum hálsi Lífið Leiksigur Ladda Gagnrýni Dóttir Annýjar og Heiðars nefnd í dag Lífið Lá ekki á óvinsælum skoðunum sínum Lífið Ungfrú Ísland snýst ekki um fallegustu stelpuna Lífið Stjörnulífið: Skvísuferðir, skvísulæti og ljóskureisa Lífið „Sagði börnunum að vondur maður hefði meitt mömmu“ Áskorun „Þetta er meiri háttar draumur að rætast” Lífið „Hvað er Gísli Marteinn gamall?“ Lífið Fleiri fréttir Leiksigur Ladda Elísabet fær uppreist æru Tveggja barna miðaldra móðir sem er sjúk í strákinn Ævar vísindamaður í miðaldrakrísu Dansandi lögreglukór og fangarnir í Sniglabandinu Fyrirsjáanlegt fjölskyldudrama Bob og Robbie í bobba Fleetwood Mac: Þegar eftirlíkingin verður betri en raunveruleikinn Sjá meira