Skýrsla um hamingju í heiminum er gefin út árlega í samstarfi við stofnun Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Hún byggir á gögnum frá fleiri en 140 ríkjum. Finnar tróna á toppi listans, Danir eru í öðru sæti, Íslendingar í því þriðja og Svíar í fjórða. Norðmenn eru í sjöunda sæti á listanum, á eftir Hollendingum og Kostaríkamönnum.
Íslendingar skora sérstaklega hátt í félagslegum stuðningi þar sem Ísland er efst á lista. Þeir eru svo í þriðja sæti hvað frelsi varðar og því fimmta yfir jöfnuð.
Neðstu sæti listans skipa Simbabve, Malaví, Líbanon, Síerra Leone og Afganistan sem vermir botnsætið.
Sjö af efstu tíu löndunum á listanum eru í Evrópu. Auk Kosta ríka eru einu ríkin utan Evrópu við topp listans Ísrael og Mexíkó.
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að lífsánægja og traust hafi mun meiri áhrif á gildi og kosningahegðun fólks en hefðbundin hugmyndafræði eða stéttabarátta. Hnignun lífshamingju og samfélagslegs trausts skýri þannig að stórum hluta vaxandi pólitíska skautun í Evrópu og Bandaríkjunum.
Óhamingjusamt fólk sem leitar í pólitískar öfgar er talið kjósa vinstrijaðarflokka ef það hefur tilhneigingu til þess að treysta öðrum en hægrijaðarflokka ef það vantreystir fólki.