Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir að venju fyrir um gengi liðanna í Bestu deild karla með árlegri spá sinni fyrir mótið. Keppni í deildinni hefst með leik Íslandsmeistara Breiðabliks og Aftureldingar laugardaginn 5. apríl.
Íþróttadeild spáir KR 4. sæti Bestu deildarinnar í sumar og liðið hækki sig um fjögur sæti milli tímabila.
Síðasta tímabil var afleitt í Vesturbænum en lokaspretturinn gaf góð fyrirheit og bjartsýnin fyrir sumrinu er því mikil meðal þeirra svarthvítu. Eftir að hafa stýrt KR í sex ár og gert liðið að Íslandsmeisturum 2019 var samningur Rúnars Kristinssonar ekki endurnýjaður. Við starfi hans tók Gregg Ryder. Klárlega ekki fyrsti kostur í stöðunni og hann stóð alltaf höllum fæti þrátt fyrir ágætis fyrirheit á undirbúningstímabilinu og sigra í fyrstu tveimur leikjum sumarsins.

Hressilega fjaraði undan KR-ingum og Ryder var rekinn 20. júní. Hann skildi við KR í 8. sæti en liðið vann aðeins þrjá af tíu deildarleikjum undir hans stjórn. Pálmi Rafn Pálmason hefur gengið í ýmis störf hjá KR undanfarin misseri og hann stýrði liðinu í næstu leikjum.
Um vorið sneri Óskar Hrafn Þorvaldsson aftur heim eftir stutt stopp hjá Haugesund í Noregi og hann tók við KR um miðjan ágúst. KR-ingar unnu aðeins einn af fyrstu sex leikjunum undir stjórn Óskars en unnu síðustu fjóra leiki sína á tímabilinu með markatölunni 19-1. Áttunda sætið varð niðurstaðan sem er versti árangur KR síðan liðið var næstum því fallið 2007.

Óskar byrjaði strax að taka til hendinni hjá KR en auk þess að vera þjálfari liðsins er hann yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu. KR-ingar byrjuðu strax að sanka að sér leikmönnum en frá miðju síðasta sumri hefur liðið fengið sextán leikmenn. Margir þeirra eru uppaldir KR-ingar, eða með tengsl við félagið, og Óskar þjálfaði suma þeirra í 2. flokki KR fyrir nokkrum árum.

Öfugt við fyrri tíma hefur KR ekki fengið til sín neinar kanónur heldur marga leikmenn sem eru svipaðir að getu og hafa möguleika á að verða mjög góðir. Meðal leikmanna sem vert er að fylgjast með má nefna Fjölnisstrákana Halldór Snær Georgsson og Júlíus Mar Júlíusson. Halldór verður í markinu hjá KR og Júlíus í lykilhlutverki í vörninni. Þá fær Eiður Gauti Sæbjörnsson traustið sem aðalframherji KR þrátt fyrir að eiga aðeins tæpt tímabil með HK í efstu deild auk neðri deildarbolta í reynslubankanum.
KR hefur nýtt meðbyrinn frá lokum síðasta tímabils og litið vel út í vetur. KR varð Reykjavíkurmeistari og vann alla leiki sína í riðlakeppni Lengjubikarsins áður en liðið tapaði fyrir Fylki í undanúrslitum.

KR-ingar virðast alltaf vera að ná æ betri tökum á leikstíl Óskars. Liðið er orkumikið, heldur bolta vel, pressar stíft og spilar mjög skemmtilegan og hrífandi fótbolta. KR-ingar geta hins vegar verið mjög opnir til baka þegar boltinn tapast og góð skyndisóknarlið gætu refsað þeim grimmilega. Það sást bersýnilega í 5-1 tapinu fyrir Víkingi í úrslitaleik Bose-bikarsins á dögunum. Tapið féll þó í skuggann af alvarlegum meiðslum Stefáns Árna Geirssonar sem verður frá að minnsta kosti næsta hálfa árið.
KR spilar fyrstu tvo heimaleiki sína, hið minnsta, á AVIS-velli Þróttar í Laugardalnum áður en liðið fer á ný gervigraslagða Meistaravelli. Biðin eftir vellinum gæti beðið fram í lok maí og jafnvel byrjun júní.
Heimavöllurinn hefur ekki gefið KR mikið síðustu ár og það þarf að breytast.

Í allra versta falli verður gaman að fylgjast með KR í sumar en liðið virðist vera á réttri leið eftir slóðanum sem Óskar hefur fetað. Reynslan í lykilstöðum er ekki mikil og það eru kannski ekki margir leikmenn úr allra, allra efstu hillu í liðinu. En sameinaðir sigrum við þá eins og segir í laginu góða og KR-ingar mega alveg leyfa sér að dreyma um Evrópusæti í sumar.