Lífið

„Ástar­sorg er best í heimi“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Kolfreyja Sól Bogadóttir, jafnan þekkt sem tónlistarkonan Alaska 1867, hefur gengið í gegnum ýmsar hæðir og lægðir lífsins. Platan hennar 222 hefur vakið mikla athygli innan tónlistarheimsins.
Kolfreyja Sól Bogadóttir, jafnan þekkt sem tónlistarkonan Alaska 1867, hefur gengið í gegnum ýmsar hæðir og lægðir lífsins. Platan hennar 222 hefur vakið mikla athygli innan tónlistarheimsins. Vísir/Anton Brink

„Það var ömurlegt að vera á ótrúlega dimmum stað. En þetta þroskaði mig svo ótrúlega mikið og ég er þakklát að fá að segja mína sögu í gegnum tónlistina,“ segir hin 25 ára gamla Kolfreyja Sól Bogadóttir, jafnan þekkt undir listamannsnafninu Alaska 1867. Hún hefur rutt sér til rúms í íslensku tónlistarlífi eftir margra ára undirbúning en fyrsta breiðskífan hennar 222 kom út í febrúar.

Kolfreyja Sól Bogadóttir er fædd árið 2000, er opin, hress og orkumikil og nafn hennar passar óneitanlega vel við dökkbrúnu augun og dökka hárið. Hún hefur gengið í gegnum ýmislegt á sinni lífsleið og er í dag þakklát fyrir erfiðleikana. 

Tónlist er hennar ástríða og forsenda fyrir innihaldsríku lífi en hefur verið edrú í tvö ár og segir að lífið hafi gjörbreyst við það að fara í meðferð.

Vandræðalegu tímabilin nauðsynleg

Frá blautu barnsbeini hefur hún elskað að koma fram.

„Ég hef alltaf vitað að ég ætli að gera tónlist, það eru bara mín örlög. Ég er ljón í tungli og elska að vera í sviðsljósinu. Þetta er búið að taka tíma en það er þess virði,“ segir Kolfreyja ákveðin og glaðlynd. Einlægnin og krafturinn leynir sér ekki hjá henni og það fer ekki á milli mála að hún hefur lagt mikið á sig.

Kolfreyja hefur alla tíð notið sín vel á sviði og stefnir langt.Vísir/Anton Brink

„Það er algjörlega nauðsynlegt að fara í gegnum vandræðaleg tímabil í tónlistinni, allir gera það. Ég þekki svo margar stelpur sem ættu að vera að gera tónlist en þær þora ekki að taka skrefið því þeim finnst svo erfitt að gera eitthvað vandræðalegt. 

Það hafa bókstaflega allir vinsælustu tónlistarmenn landsins farið í gegnum vandræðalegt tónlistartímabil. Þú verður að fá að gera mistök.“

Allur frítíminn fer í tónlistina

Kolfreyja ólst upp á Fáskrúðsfirði og flutti svo til Akureyrar. Þegar unglingsárin skullu á fluttist fjölskyldan suður og hún byrjaði í Hlíðaskóla.

„Ég er svo nítján ára þegar ég byrja að búa til tónlist með fyrrverandi kærastanum mínum. Hann er ótrúlega góður pródúser og fékk þessa náðargáfu í vöggugjöf.“

Þáverandi kærustuparið byrjaði að deila lögunum á streymisveitunni Soundcloud.

„Ég hef alltaf vitað að ég vilji vinna við þetta og taka pláss á þessu sviði. Það var aldrei þannig að allir þyrftu að vita hver ég væri heldur snerist þetta um að fá að lifa og hrærast í þessum tónlistarheimi. 

Ég er alveg til í að vinna aðra vinnu með, svo lengi sem ég get verið að semja tónlist. Allur frítíminn minn fer í þetta. Ég hef svo mikinn metnað fyrir þessu og það er ekkert annað sem kemst að hjá mér.“

Tónlistin er mikil köllun fyrir Kolfreyju.Vísir/Anton Brink

Hún segir að samspil ýmissa hluta hafi svo unnið saman til þess að tónlistin færi á skrið.

„Þetta eru alls konar litlir hlutir sem urðu að einhverju stóru. Ég er búin að vera edrú í tvö ár í dag en ég byrjaði að djamma á þessum tíma og kynntist helling af krökkum. Ýmir, sem kallar sig Whyrun, gerði plötuna mína með mér en hann var fyrsti plötusnúðurinn sem spilaði lagið mitt á setti. 

Hann var bara aðdáandi og það var svo mikill heiður. Árið 2023 ákveðum við að taka eitt stúdíó session saman og við gerðum bara fimm lög á einu kvöldi. Fljótlega ákváðum við að gera heila plötu.“

Segir þroskann verða til í sársauka

Það urðu mikil vatnskil í lífi Kolfreyju þegar hún var 23 ára og edrúmennskan hefur reynst henni góð listagyðja.

„Eftir að ég kom út úr meðferð og er búin að vera edrú þá er þetta bara allt annað batterí hjá mér. Núna klára ég það sem ég byrja á. Ég var alltaf með hugmyndir og verkefni í gangi sem ég kláraði aldrei. Þetta er í fyrsta skipti sem ég fylgi þessu algjörlega eftir.“

Hún segir erfitt að svara því hvers vegna hún valdi tónlistina þar sem tónlistin sé órjúfanlegur hluti af henni.

„Þetta er svo ótrúlega mikið tjáningarform fyrir mér. Ég veit það ekki, ég get ekki útskýrt það. Þetta er mér bara svo eðlislægt. Þetta er rosalega mikil útrás. Textinn er alveg oft nettur því hann er nettur en ég fer inn á alls konar persónulegt í lögunum mínum. 

Ég geri bestu lögin mín þegar ég er í ástarsorg. Ef það er ekkert að gerast í lífi mínu þá er engin tónlist að fara að koma,“ segir Kolfreyja kímin og bætir við:“

„Mér finnst ekkert af því sem ég hef lent í vera slæmt þegar allt kemur til alls. Mitt litla djamm tímabil fékk mig til að kynnast alls konar fólki og mótast af senunni. 

Eftir á sér maður að það sem maður hefur gengið í gegnum gerðist af ástæðu. Það er eitthvað svo fallegt við það. Þroski verður til í sársauka.“

Edrúmennskan ekkert djók

Ástæða þess að Kolfreyja fór í meðferð var fyrst og fremst vegna þess að hún er alkóhólisti að hennar sögn.

„Ég er allt eða ekkert. Það var engin spurning, ég þurfti bara að fara í meðferð og mér var ýtt þangað. Ég fór á Hlaðgerðarkot og það var bara ótrúlega gott. Ég er búin að vera mjög dugleg eftir að ég kom út. Ég tek þessu mjög alvarlega og mér finnst þetta ekki neitt djók. 

Ef ég dett í það þá fer allt í rugl hjá mér. Edrúmennskan og tónlistin, þetta er bara gert af algjörri alvöru. Ef ég ætla að gera eitthvað þá vil ég gera það vel.

Mér finnst list svo falleg og mér finnst svo gaman að vera gella uppi á sviði. Ég held að margir séu hræddir við það hvað það er þunn lína á milli þess að vera kjánalegur og nettur. Maður verður að hafa breitt bak. Ég tók oft inn á mig hvað einhverjir voru að segja en núna finn ég ekkert fyrir því.“

Kolfreyja einhver sem ætti að semja þjóðlög

Kolfreyja velti því lengi fyrir sér hvað listamannanafnið hennar ætti að verða og vildi ómögulega kalla sig skírnarnafninu.

„Mér fannst Kolfreyja einkenna það að ég ætti að vera að búa til þjóðlög eða útilegulög. Ég var svo að horfa á BuzzFeed myndband á Youtube einhvern tíma um nóttina þar sem það var verið að tala um að Alaska ríkið hafi verið selt til Bandaríkjana árið 1867 og ég hugsaði bara já, Alaska 1867. Þarna kom listamannsnafnið.“

Alaska 1867 er listamannsnafn Kolfreyju. Hún á enn eftir að heimsækja Alaska fylki en segist tvímælalaust ætla að gera það einn daginn.Vísir/Anton Brink

Kolfreyja hefur notast við listamannsnafnið frá árinu 2019 og aldrei efast um það. En hefur hún heimsótt þetta bandaríska fylki? 

„Ég hef aldrei komið en þarf klárlega að heimsækja Alaska einhvern tíma,“ segir hún kímin.

Óraunveruleg upplifun að halda útgáfuteiti

Útgáfuteiti plötunnar 222 fór fram á Prikinu og var að sögn Kolfreyju virkilega góð stemning. Hún var stíliseruð af skvísunum sem reka rýmið B12 hliðina á Prikinu en tíska og stíll er stór partur af karakter Kolfreyju.

„Það komu svo margir og það var alveg stappað. Þetta var óraunveruleg tilfinning og ég var lengi að jafna mig eftir þetta. Það er bara eins og maður sé þunnur eftir svona mikla hæð.

Ég var mjög stolt af mér og ég skil ekki alveg hvernig þetta er búið að gerast. Þetta gerist svo ótrúlega hratt eftir að hafa verið svo lengi að gerast. 

Ég er búin að vera að manifesta þetta á fullu. Ég er með alls konar miða í veskinu mínu og símanum þar sem ég skrifa til dæmis 222 sem eru englatölur og ég elska þær. Ég hef verið að senda þetta út í kosmósinn og er búin að vera með þessa stefnu í mörg ár.“

Talan 2 er sérstaklega persónuleg fyrir vinkonuhóp Kolfreyju.

„Vinkona mín missti pabba sinn 22. apríl 2022. Hún sá þessa tölu út um allt og tengdi þetta ekki strax fyrr en við allt í einu áttuðum okkur á þessu. Núna erum við alltaf að sjá þessa tölu, auðvitað getur það verið því við erum sérstaklega að taka eftir henni en það er bara svo gaman að trúa á eitthvað fallegt. 

Lífið þarf ekki að vera svona alvarlegt og ég hef alltaf leyft mér að vera með draumóra. Ég hugsa alltaf: Ef þetta gerir lífið skemmtilegra þá er það þess virði.“

Er ekkert að skafa af hlutunum

Kolfreyja, eða rísandi stjarnan Alaska, er rétt að byrja og stefnir fulla ferð áfram. Hana langar að koma fram á Þjóðhátíð, vinna með fjölbreyttu fólki, gefa út fullt af efni og hvetja aðrar stelpur til að fara á fullt í tónlistina.

„Ég er að gefa út lag í apríl og það er nóg á leiðinni. Ég ætla ekkert að hætta núna.“

Þakklæti er stór hluti af lífi hennar og erfiðir tímar hafa, þegar allt kemur til alls, reynst henni vel.

„Það hefur mótað mig allra mest að verða edrú. Allir erfiðleikarnir hafa gefið mér mikilvæga lífsreynslu og ég hef svo mikið að tala um í lögunum mínum. Ég er ekkert að rappa um einhvern nýjan bíl sem ég hef ekki keypt mér.

Það var ömurlegt að vera á ógeðslega dimmum stað. En þetta þroskaði mig svo ótrúlega mikið og ég er þakklát að fá að segja mína sögu í gegnum tónlistina. Hún verður svo djúp út af þessu. Textinn í laginu mínu Fráhvörf er til dæmis rosalega brútal en það eru margir að tengja og það er fallegt. Ég er ekkert að skafa af hlutunum.“

Þarf að segja sinn sannleika

Kolfreyja segist upplifa sig sem góða fyrirmynd og henni finnst mikilvægt að geta sagt sannleikann.

„Ég fékk eitthvað hatur um að ég væri ekki góð fyrirmynd. Mér finnst ég bara geggjuð fyrirmynd og krakkar í dag eru ekkert einhverjir englar. Mér finnst fallegt og mikilvægt að geta talað um það sem er í alvöru í gangi og ég þarf að segja minn sannleika.“

Kolfreyja sér mikla fegurð í því að geta sagt sinn sannleika, þrátt fyrir að það sé berskjaldandi og krefjandi.Vísir/Anton Brink

Hún segist hafa miklar áhyggjur af aukinni neyslu hjá ungu fólki og það sé nauðsynlegt að vekja athygli á því.

„Um daginn var ungur strákur sem sagði við mig að hann hefði ekki tekið Oxy (OxyContin) í þrjá mánuði. Hann var fimmtán ára. Það er hræðilegt og sömuleiðis tekur virkilega á að heyra af öllum þessum árásum. 

Við þurfum líka nauðsynlega fleiri meðferðarheimili fyrir börn. Það þýðir ekki að sópa þessu undir teppi og láta eins og þetta sé ekki til.“

Skammast sín ekki en berskjöldunin stressandi

Kolfreyja var ung þegar hún fór í meðferð, um 22 ára, og segir að því hafi verið aðgengilegra fyrir hana að komast inn.

„Núna er ég orðin 25 ára og ef ég myndi detta í það tæki það mig svona níu mánuði að komast inn á Vog aftur.“

Þrátt fyrir að henni finnist gríðarlega mikilvægt að opna á umræðuna finnst henni það sömuleiðis krefjandi.

„Mér finnst smá stressandi að opna mig um þetta. Ég vil ekki vera þekkt fyrir það bara að vera í neyslu og ég vil ekki að fólk vorkenni mér eða tengi tónlistina mína alltaf við einhverja stelpu sem átti erfitt. Ég skammast mín samt ekki neitt og ég held að þetta sé bara partur af því að berskjalda sig. 

Ég er ótrúlega hvatvís og þegar ég ræddi þetta fyrst opinskátt hafði ég kannski ekki hugsað þetta í gegn. Ég held að þetta sé erfitt líka því þetta er svo mikið tabú og svo getur alls konar gerst í lífinu sem ég get ekki vitað af núna.“

Langar í almennilegan mann sem er ekki í neyslu

Berskjöldunin er að sama skapi valdeflandi fyrir Kolfreyju.

„Við konur erum svo góðar í því að vera einlægar og að mínu mati þurfa fleiri að heyra plötuna mína. Ég er ekki að grínast, viðbrögðin hafa verið stórkostleg frá þeim sem hafa heyrt hana og það hefur verið ótrúlega verðmætt að fá jákvæðar athugasemdir frá fólki í bransanum. 

Almúginn þarf bara að heyra þetta núna og það er ógeðslega erfitt að koma tónlistinni út til allra. Ég er ekkert góð í einhverjum svona markaðssetningarpælingum.“

Kolfreyja er mjög hrifin af tarot spilum og alls kyns hugmyndum um eitthvað æðra eða stærra. 

„Rétt áður en platan kom út dró ég tarot spil og þar stóð að ég þyrfti að standa mjög mikið með sjálfri mér á komandi tímum. Ég er ótrúlega meðvirk, ég þarf að vera mjög varkár og passa að standa með mörkunum mínum og ég veit að það kemur. 

Ég er ung og stöðugt að læra en ég er fyrst og fremst ógeðslega spennt að halda áfram að gera tónlist. Ég elska þetta.“

Ástin hefur ekki bankað upp á hjá Kolfreyju nýverið og henni líður vel einhleypri.

„Ég er með rosalega standarda en samt endar týpan mín alltaf á að vera dópistar sem gera lög. Ég þarf aðeins að endurhugsa þetta,“ segir Kolfreyja kímin og bætir við: „Eftir að ég varð edrú þá er þetta ekkert grín fyrir mér. Mig langar í mann sem er almennilegur og ekki í neyslu.

Ég er búin að vera einhleyp núna í sex mánuði og á þessum tíma hef ég gert lang bestu lögin. Því ég er ekki að grínast, ástarsorg er best í heimi.“

Kvartar ekki yfir fortíðinni

Kolfreyja átti kærasta í þrjú ár sem vann náið með henni að hennar fyrstu skrefum í tónlistinni.

„Við vorum í neyslu og hættum saman á slæmum nótum en erum góðir vinir í dag. Hann eyddi öllum gömlu lögunum okkar af Soundcloud og eftir það stoppaði tónlistarflæðið smá. 

Það er samt svo geggjað að ég þurfti þarna að vera ein, standa með mér og þá náði ég bara að finna út úr þessu. Ég er núna með stúdíó heima þar sem ég tek upp sjálf því ég þurfti að læra þetta.“

Ástarsorgin reyndist Kolfreyju mikill kennari.Vísir/Anton Brink

Kolfreyja trúir því að manneskjan eigi fullt af sálufélögum og vill aldrei lifa í eftirsjá.

„Ég er alveg komin yfir það að vera að kvarta yfir einhverri fortíð. 

Allt hefur verið svo eflandi, fyrir bæði mig og tónlistina mína. Ef það væri ekki fyrir alla þessa stráka, allt þetta dóp og allt þetta kjaftæði þá væri ég ekki að gera svona góða tónlist í dag. Það þýðir ekkert annað en að sættast við fortíðina. Ég er bara spennt fyrir komandi mistökum,“ segir Kolfreyja og hlær.

Á líka skilið að líða vel

Blaðamaður spyr þá hvort hún eigi mögulega eftir að finna annan innblástur og listagyðjuna innra með sér þegar allt leikur í lyndi og er í góðu jafnvægi?

„Jú, kannski verð ég bara mega hamingjusöm og geri einhver frábær ástarlög, hver veit. Manni á líka skilið að líða vel. Ég var alltaf svo ótrúlega neikvæð einu sinni því mér leið illa, ekkert kláraðist eða gekk upp því maður var í svo neikvæðri orku. 

Ég trúi svo innilega á karma og núna gengur allt svo vel. Ég legg mikið upp úr því að vera góð við sjálfa mig og góð við alla og það gengur allt upp. 

Ég og vinkona mín búum núna saman í algjörri draumaíbúð í miðbænum og lífið er gott. Guð sér um sína, eða allavega alheimurinn. Ég trúi því að það sé eitthvað æðra þarna að passa mig.“

Hér má hlusta á Kolfreyju eða Alaska1867 á streymisveitunni Spotify. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.