Í tilkynningu frá Orkunni kemur fram að með breytingunni muni fyrirtækið spara um hundrað þúsund plasthanska árlega. Hanskarnir hafa staðið viðskiptavinum til boða til að tryggja hreinlæti við dælingu en vegna umhverfissjónarmiða hefur verið ákveðið að fjarlægja þá af dælunum.
„Við hjá Orkunni erum alltaf að leita leiða til að minnka áhrif okkar á umhverfið og teljum við þetta gott skref í þeirri vegferð. Við skiljum þó vel að viðskiptavinir velji að nýta sér hanska þegar dælt er og vegna þess var ákvörðun tekin að koma til móts við það sjónarmið og gefa fjölnota dæluhanska í staðinn. Við hlökkum til að taka skrefið með viðskiptavinum okkar. Ég er sannfærð um að það verði vel tekið í þessa nýjung enda hafa viðskiptavinir okkar sýnt það að þeir eru móttækilegir fyrir nýjungum,” segir Auður Daníelsdóttir, forstjóri Orkunnar, í tilkynningu.
Fáanlegur fyrir vinstri og hægri
Hægt verður að nálgast fjölnota hanskann á skrifstofu Orkunnar í Fellsmúla 28 og hjá samstarfsaðilum á landsbyggðinni. Hanskinn sem er til í nokkrum stærðum er teygjanlegur og verður fáanlegur fyrir hægri hönd eða vinstri.