Tíska og hönnun

Héldu að hún væri rokk­stjarna eða gift ríkum gaur

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Jógakennarinn, tískugyðjan og lífskúnstnerinn Ragnhildur Eiríksdóttir er viðmælandi í Tískutali.
Jógakennarinn, tískugyðjan og lífskúnstnerinn Ragnhildur Eiríksdóttir er viðmælandi í Tískutali. Vísir/Anton Brink

„Ég elska pressu. Ef ég er að fara eitthvað þarf ég endilega að fá nýja flík og þá sit ég stanslaust við saumavélina. Þá er enginn nótt og enginn dagur,“ segir jógakennarinn og lífskúnstnerinn Ragnhildur Eiríksdóttir sem fer sannarlega eigin leiðir í tískunni en hver einasta flík í fataskáp hennar er að einhverju leyti einstök. Ragnhildur er viðmælandi í Tískutali.

Hér má sjá viðtalið við Ragnhildi í heild sinni:

Með meistaragráðu í að pakka fyrir flug

Ragnhildur starfar sem flugfreyja, hefur ferðast víða um heiminn og er lærður klæðskeri þótt hún hafi aldrei starfað sem slíkur. Hún fór fyrst og fremst í námið til þess að geta saumað á sjálfa sig sem hún er svo sannarlega dugleg að gera og fer alltaf sínar eigin leiðir.

„Það er innbyggt í mér að ef allir eru að fara til vinstri þá verð ég að fara til hægri.“

Það flækist ekki fyrir henni að pakka létt og skynsamlega fyrir flug og mætti segja að hún væri með meistaragráðu í því.

„Þegar ég er að ferðast þá er ég bara með handfarangur. Ég máta allt áður en það fer ofan í tösku. Það þarf allt að passa saman og ég get mixað það hægri, vinstri. Því stundum er hugmyndin af einhverri samsetningu æðisleg, en svo fer ég aldrei í flíkina á ferðalaginu því ég hugsaði þetta ekki í gegn.

Ég er að spá í að vera allan maí á Ítalíu og ég ætla bara að vera með handfarangur. Þetta er líka áskorun og mér finnst gaman að ögra mér svona. Ég hugsa að ég reyni bara að búa til flíkurnar sem eru nógu léttar, kjólarnir nógu þægilegir og svo bara einhverja peysu með.“

Sonurinn duglegur að fá töskurnar að láni

Ragnhildur á glæsilegt töskusafn, bæði úr hátískuhúsum og svo héðan og þaðan. Sömuleiðis hefur hún saumað alls konar einstakar töskur sem sonur hennar er duglegur að fá að láni.

„Mér finnst rosalega gaman sonur minn sem er 24 ára stelur töskunum mínum og notar þær mjög mikið. Til dæmis þessa rússkins tösku sem ég saumaði nýlega,“ segir Ragnhildur og sýnir vönduð smáatriði töskunnar.

„Síðan er hann gríðarlega svekktur að passa ekki í fötin mín, en alltaf skal hann reyna.

Svo á ég Saint Laurent tösku sem mér finnst gríðarlega falleg og á skemmtilega sögu. Þetta var á Covid tímanum og það var náttúrulega enginn að ferðast nema landsliðið var á ferðalagi og eiginmaðurinn var með þeim í Kaupmannahöfn, segir Ragnhildur en hún er gift Þorgrími Þráinssyni.

 Fannst taskan ljót

„Hann sendir á mig hvort mig vanti eitthvað á Kastrup og ég hugsa já danski lakkrísinn, mig langar rosalega í hann. En ég ákvað að senda: Er Saint Laurent búð þarna? sem hann svaraði játandi. Ég bað hann að tékka hvort þessi ákveðna taska sé til. Hann fer í búðina og sendir mér skilaboð að sér finnist taskan ljót.

Síðan stuttu seinna sendi ég honum og bið hann að fara aftur í búðina, máta töskuna og senda mér mynd. Hann var þá svolítið upptekinn við að borða pizzu en næst sendir hann mér skilaboð með mynd með töskuna.“

Ragnhildur svaraði eiginmanni sínum að sér þætti taskan ótrúlega flott.

Sem hann svaraði: „Stelpurnar í búðinni eru að vinna í þessu“. Mér finnst það svolítið skemmtilegt. 

En í dag fer ég í þessar búðir og mig langar ekki í neitt. Mér finnst það æðislegur staður að vera á, en ég má breyta eins oft og ég vil. Ég má skipta um skoðun eins oft og ég vil.

Með hanakamb í sérsaumuðum jakka eftir sjálfa sig

Ragnhildur er dugleg að breyta og betrumbæta ýmsar flíkur sem hún hefur í gegnum tíðina meðal annars keypt í Uniqlo og Zöru. Sem dæmi á hún gamlan blazer jakka sem hún gaf algjörlega nýtt líf og hefur jakkinn vakið skemmtilega athygli.

„Ég var einhvern tíma ein að borða í Washington DC á mjög fínum veitingastað og þegar ég stóð upp þá var búið að borga reikninginn minn. Ég fór að horfa í kringum mig og þá voru þetta einhverjir huggulegir dúddar þarna við barinn. 

Þeir sögðu: „Annað hvort ertu gift einhverjum mjög ríkum gaur eða þá ertu rokkstjarna“. Þá var ég að vísu með hanakamb, mjög stutt hár og í þessum jakka,“ segir Ragnhildur og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.