Fótbolti

„Sá það strax að boltinn myndi enda inni“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Rúnar Már Sigurjónsson skoraði sigurmark Skagamanna. 
Rúnar Már Sigurjónsson skoraði sigurmark Skagamanna.  Vísir/Arnar Halldórsson

Rúnar Már Sigurjónsson skoraði markið sem færði Skagamönnum sigurinn þegar liðið sótti Fram heim í fyrstu umferð Bestu-deildar karla í fótbolta á Lambhagavellinum í Úlfarsárdal í kvöld. 

„Tilfinningin er mjög góð að hafa náð að landa sigri. Þetta var í raun leikur eins og við áttum von á, mikill baráttuleikur og hart barist um allan völl. Við lögðum leikinn vel upp og náðum að fylgja því plani. Við vorum þéttir og héldum hreinu sem er mjög jákvætt,“ sagði Rúnar Már Sigurjónsson, hetja Skagamanna í leiknum. 

Sigurmark Rúnars Más kom með hnitmiðuðu skoti beint úr aukaspyrnu. 

„Ég hitti boltann vel og sá það strax að þetta væri að fara inn. Það voru einhverjir sem vildu meina að vindurinn hafi gripið boltann og hjálpað til við að að koma honum á réttan stað. Ég held að það sé algjört kjaftæði,“ sagði miðjumaðurinn léttur. 

Síðasta keppnistímabil var meiðslum hrjáð hjá Rúnari Má sem segist koma til leiks í fínu standi að þessu sinni. 

„Ég náði að spila allan leikinn sem var ekki alveg víst að ég myndi ná fyrir leikinn. Standið er bara fínt og það er langt á milli leikja þannig að ég ætti að geta spilað allan leikinn í næstu umferð einnig. Það er flott stemming í liðinu og bara í bæjarfélaginu öllu. Við erum bjartsýnir á gott gengi í sumar,“ sagði fyrirliðinn um framhaldið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×