Golf

Rory McIlroy: Hvað ætlið þið núna að tala um fyrir næsta Mastersmót?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rory McIlroy brosti út að eyrum þegar hann var kominn í græna jakkann í gær.
Rory McIlroy brosti út að eyrum þegar hann var kominn í græna jakkann í gær. Getty/Richard Heathcote

Rory McIlroy viðurkenndi að hann var farinn að hugsa um það hvort að það kæmi kannski aldrei að honum eftir að hafa beðið í ellefu ár eftir að fullkomna alslemmu golfsins. Í gærkvöldi komst hann loksins í græna jakkann eftirsótta og hefur því unnið öll risamótin á ferli sínum.

Pressan var mikil á McIlroy og hann hefur oft kiknað undan henni áður. Það munaði reyndar ekki miklu að hann missti frá sér sigurinn í gær en honum tókst að lokum að landa sigri í bráðabana.

Þetta var sautjánda Mastersmót McIlroy en hann tók fyrst þátt árið 2009. Hann hafði dreymt um að vinna þetta mót síðan hann var strákur.

Þegar lokapúttið fór rétta leið og sigurinn var í höfn flæddu tilfinningarnar fram og Norður-Írinn átti erfitt með sig. Það var líka mjög auðvelt að samgleðjast með honum þá því það var enginn vafi um hversu miklu máli þetta skipti hann.

Kemur kannski aldrei að mér

„Það voru tímapunktar á seinni níu holunum þar sem ég hugsaði: Er ég að láta þetta renna frá mér aftur? Ég var í baráttu við sjálfan mig í dag og ekki við neinn annan,“ sagði Rory McIlroy.

„Ég fór líka að hugsa um hvort það kæmi kannski aldrei að mér,“ sagði McIlroy.

„Undanfarin tíu ár hef ég komið hingað með þá þungu byrði á öxlunum að reyna ná að loka alslemmunni,“ sagði McIlroy.

Stoltur

„Ég er svo stoltur af því að geta núna kallað mig Mastersmeistara,“ sagði McIlroy.

„Þetta hefur verið mjög erfitt. Ekki bara að vinna risamót heldur að loka alslemmunni,“ sagði McIlroy.

McIlroy grínaðist með það að umræðan hafi snúist mikið um hann fyrir Mastersmótin síðustu ár.

„Hvað ætlið þið núna að tala um fyrir næsta Mastersmót?“ spurði McIlroy og brosti. Athyglin hefur skiljanlega verið mikil á honum enda átti hann möguleika á að komast í mjög fámennan hóp.

Draumur að rætast

„Þetta er draumur að rætast. Mig hefur dreymt um þetta eins lengi og ég man eftir mér,“ sagði McIlroy.

„Síðan ég og pabbi vorum að horfa saman á Tiger Woods vinna græna jakkann árið 1997. Ég held að það hafi gefið mörgum í minni kynslóð innblástur að reyna að leika það eftir,“ sagði McIlroy.

„Þetta er því besti dagurinn á minni golfævi. Með þessu hef ég bókstaflega látið drauma mína rætast,“ sagði McIlroy.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×