Tónlist

Elti ástina til Ís­lands

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Tónlistarmaðurinn snny var að senda frá sér plötuna caféradio.
Tónlistarmaðurinn snny var að senda frá sér plötuna caféradio. Kaja Sigvalda

„Í hvert skipti sem ég skapa þá reyni ég að byggja brú á milli ólíkra hluta, ólíkra menninga og hugmynda, því í kjarnann er ég þannig listamaður,“ segir tónlistarmaðurinn Sonny Bouraima, sem notast við listamannsnafnið snny og var að senda frá sér plötuna caféradio.

Margt svipað með Reykjavík og New York

Snny er fæddur á Fílabeinsströndinni í Vestur-Afríku og alinn upp í Boston. Hann kynntist eiginkonu sinni fyrirsætunni Sigrúnu Evu Jónsdóttur-Bouraima í New York og ástin leiddi hann svo til Íslands, þar sem hann unir sér vel.

„Það hefur verið gefandi bæði að búa og skapa í Reykjavík. Mér finnst skapandi samfélagið hér þrífast vel og ég er með stúdíó í Hafnar.hausi sem er skapandi rými í Hafnarhúsinu þannig mér finnst ég ná að vera svolítið í hringiðunni á þessu öllu. Þó að þetta sé frábrugðið New York að mörgu leyti finnst mér orkan í listasenunni í raun mjög svipuð.“

Sonny og Sigrún eiga saman dóttur en hún fæddist á Íslandi árið 2019 rétt áður en Covid faraldurinn hófst.

„Við fluttum svo til Íslands í Covid. Dóttir okkar fæddist hér í október 2019 og við ætluðum svo að flytja aftur til New York í febrúar 2020. Mánuði seinna skall Covid á þannig við komum aftur hingað og settumst að í Reykjavík.“

Heillaðist að japönskum jazz kaffihúsum

Við gerð EP plötunnar caféradio var gleðin í fyrirrúmi.

„Öll þessi lög á plötunni voru samin í stúdíóinu þar sem við vorum bara að skemmta okkur vel og vorum ekki að hugsa um neitt annað en njóta þess að skapa fyrir sköpunina. Ég fór í gegnum ákveðna enduruppgötvun á mínu sköpunarferli.

Í ferlinu heillaðist ég mjög að svokölluðum japönskum jazz kissa, sem eru kaffihús með alvöru gæða hljóðkerfi og gríðarlegu plötusafni. Ég togaðist í átt að þessu og sá fyrir mér hvers lags tónlist ég myndi vilja heyra á slíku kaffihúsi.“

Hér má hlusta á plötuna á streymisveitunni Spotify: 

Hann sótti sömuleiðis mikinn innblástur í ekta Tókýó stíl, þar á meðal ljósmyndir Kyoichi Tsuzuki af pínulitlum og fallegum íbúðum í stórborginni.

„Ljósmyndirnar hans grípa eitthvað sem ég hef alltaf heillast að. Hið ljóðræna ójafnvægi, sálin í ófullkomnuninni og hvernig rými getur sagt sögu án þess að segja orð. Ég ákvað að prófa að senda á Kyoichi en bjóst ekki við því að fá einhver svör. 

En ótrúlegt en satt tók hann ótrúlega vel í hugmyndina og við unnum saman plötuumslagið fyrir caféradio. Það endurspeglar nándina og hlýjuna sem ég vil að einkenni tónlistina mína.“

Plötuumslagið umrædda.Aðsend

Upplifun í einangrun

Platan hefur verið í vinnslu hjá Snny í rúmt ár.

„Ég var ekki með ákveðinn skilafrest á þessu, mig langaði bara að leyfa tónlistinni að þróast náttúrulega og njóta alls ferlisins.“

Hér má sjá tónlistarmyndbandið við lagið Vanguard af plötunni:

Klippa: snny - Vanguard

Hugmyndin að tónlistarmyndbandinu kom í kjölfar þess að danska hljóðfyrirtækið AIAIAI valdi Snny í hóp þeirra listamanna sem þau styrkja.

„Þau sendu mér þráðlausa mónitora til að búa til eitthvað skemmtilegt efni í kringum. Hugmyndin var að skapa einstaklingsbundna hlustunar-upplifun sem fer fram í einangrun, úti í náttúrunni með engar truflanir. Bara hljóð, rými og snjór.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.