Innlent

For­eldrar fjöl­bura fá lengra fæðingar­or­lof

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Foreldrar fjölbura eiga nú samkvæmt lögum rétt á lengar fæðingarorlofi.
Foreldrar fjölbura eiga nú samkvæmt lögum rétt á lengar fæðingarorlofi. Vísir/Vilhelm

Foreldrar sem eignast fjölbura eða lenda í veikindum á meðgöngu eiga nú rétt á lengingu fæðingarorlofs eða greiðslu fæðingarstyrks. Þetta var lögfest er frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra var samþykkt á Alþingi í dag.

Foreldrar sem eignast fjölbura eiga nú samkvæmt lögum rétt á lengra fæðingarorlofi eða greiðslu fæðingarstyrks í sex mánuði fyrir hvert barn sem fæðist umfram eitt. Þar af leiðandi eiga foreldrar sem eignast tvíbura rétt á sex mánuðum aukalega í fæðingarorlof og foreldrar sem eignast þríbura rétt á tólf mánuðum.

Foreldrarnir mega ráðstafa fæðingarorlofinu að vild en lögin ná einnig til foreldra sem ættleiða eða taka fleiri en eitt barn í varanlegt fóstur á sama tíma. 

Lögin ná nú einnig yfir foreldra sem hafa veikst alvarlega í tengslum við meðgöngu. Haldi veikindin áfram eftir fæðingu barnsins og gerir foreldrið ófært um að sjá um barnið á það rétt á allt að tveimur mánuðum aukalega í fæðingarorlof.

„Með báðum þessum breytingum viljum við taka utan um fólk í aðstæðum sem geta verið afar krefjandi. Þetta eru umbætur sem geta skipt afskaplega miklu máli fyrir þau börn og fjölskyldur sem um ræðir. Þær sýna að við í ríkisstjórninni meinum það þegar við segjum að við ætlum að láta verkin tala, stoppa í götin og bæta hag fólks,“ er haft eftir Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, í tilkynningu frá ráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×