Golf

Tví­burar jafnir eftir fyrsta dag á Opna breska

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dönsku kylfingarnir Rasmus Höjgaard og Nicolai Höjgaard eru tvíburar og jafnir í tíunda sætinu eftir fyrsta daginn á Opna breska meistaramótinu.
Dönsku kylfingarnir Rasmus Höjgaard og Nicolai Höjgaard eru tvíburar og jafnir í tíunda sætinu eftir fyrsta daginn á Opna breska meistaramótinu. Getty/ Jonathan Bachman

Dönsku tvíburarnir Nicolai og Rasmus Höjgaard eru ekki bara að vekja athygli á Opna breska risamótinu í golfi fyrir að komast báðir á þetta eftirsótta síðasta risamót ársins.

Það ótrúlegasta við þátttöku þeirra á mótinu er að þeir eru jafnir eftir fyrsta daginn og þeir voru báðir að spila mjög vel eða undir pari.

Þeir léku nefnilega báðir á 69 höggum eða tveimur höggum undir pari. Það skilar þeim tíunda sætinu ásamt nokkrum öðrum kylfingum.

Nicolai Höjgaard var með fjóra fugla og einn skramba. Hann fékk fuglana á holum tvö, sjö, tólf og þrettán.

Rasmus Højgaard var með fjóra fugla og tvo skolla. Hann fékk fuglana sína á holum fimm, sjö, tíu og sautján.

Þeir náðu því báðir fugli á sjöundu holunni og annar hvor Höjgaard bróðurinn náði fugli á sjö af átján holum.

Höjgaard tvíburabræðurnir eru fæddir 12. mars 2001 og eru því 24 ára gamlir.

Nicolai er í 30. sæti á heimslistanum en hann endaði í 23. sæti á Opna breska risamótinu í hittiðfyrra.

Rasmus er í 37. sæti á heimslistanum en hann endaði í sextugasta sæti á Opna breska risamótinu í fyrra.

Opna breska meistaramótið er sýnt beint á Sýn Sport 4 alla helgina og er útsending hafin frá keppni dagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×