Lífið

Samfélagsmiðlar sýna ekki ein­mana­leikann

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Sara Líf Guðjónsdóttir skrifaði færslu á facebook hópinn Mæðratips sem vakti gríðarlega mikla athygli.
Sara Líf Guðjónsdóttir skrifaði færslu á facebook hópinn Mæðratips sem vakti gríðarlega mikla athygli. Aðsend

„Kveikjan að öllu þessu var í raun og veru mín eigin líðan,“ segir Sara Líf Guðjónsdóttir, laganemi og flugfreyja, um færslu sem hún birti á Facebook hópinn Mæðratips og hlaut mikla athygli. Þar bauð Sara mæðrum sem hafa einangrast eða finna fyrir einmanaleika að vera með í opnum mömmuhóp og áður en hún vissi af höfðu yfir hundrað konur sent henni skilaboð.

Varð ung móðir og fjarlægðist jafnaldra

Sara Líf er fædd árið 1998 og eignaðist son árið 2018.

„Þá var ég aðeins nítján ára gömul og upplifði strax að ég passaði ekki beint inn í „mömmuhópana“, því ég var svo mikið yngri en flestar. Mínar vinkonur voru líka ekki lengur á sama stað og ég í lífinu og við fjarlægðumst mikið.“

Þegar Covid hófst snemma árs 2020 fann Sara einangrunina ágerast.

„Allt frá árinu 2022 og til dagsins í dag hef ég eiginlega bara verið að drekkja sjálfri mér í vinnu og námi og þar af leiðandi eiginlega bara gleymt félagslífinu. Fyrr á árinu varð ég fyrir ákveðnum áföllum og fór að finna fyrir stigvaxandi vanlíðan.

Þá fann ég svo sterkt hvað ég þráði að eiga hóp af vinkonum sem væru á sama stað og ég í lífinu, þá sérstaklega mæður sem væru til í að gera eitthvað saman með börnin og hefðu skilning á því hvernig það er að vera ung móðir.“

Mikilvægt að eiga vini sem eiga sameiginlega reynslu

Sara segir að vissulega sé gaman og stundum mikilvægt að geta gert hluti án barnanna.

„En eins og flestar mæður tengja örugglega við þá hafa barnlausu vinkonurnar mikið meiri tíma til þess að gera alls konar hluti á meðan við sem eigum börn þurfum að velja betur, þar sem börnin eru oft í íþróttum og þurfa að fara snemma að sofa og því höfum við auðvitað ekki sama frítímann.“

Sara Líf var nítján ára þegar hún eignaðist son sinn.Facebook

Sara ítrekar að hún eigi margar góðar vinkonur sem hún er mjög þakklát fyrir en það skipti líka máli að eiga vini að sem geta vel tengt við það sem er í gangi í lífi hennar.

„Flestar vinkonur mínar eru á öðrum stað en ég í lífinu og margar eru einmitt líka barnlausar. Það er bara eitthvað öðruvísi við það að eiga barn og mér finnst mikilvægt að tengjast fólki sem skilur það og er jafnvel til í að jafnvel hittast og gera skemmtilega hluti saman með börnin.“

Maður sér ekki það slæma á Instagram

Í kjölfar áfalla og erfiðleika leitaði Sara sér hjálpar og byrjaði hjá sálfræðingi í maí sem hún segir að hafi hjálpað sér mikið.

Eftir að hafa svo oft séð konur skrifa inn á Mæðratips að þær væru að leita að vinkonu fór ég að velta fyrir mér af hverju ég nýtti ekki minn eigin miðil til að gera eitthvað í þessu.

Hún segir alltaf auðveldast að sýna ákveðna glansmynd á Internetinu.

Við sýnum svo oft bara gleðina á samfélagsmiðlum en ekki þegar við erum grátandi á baðherberginu, einmana.

Mér er sérstaklega minnisstætt þegar vinkona vinkonu minnar sagði við mig að hún skildi ekki hvernig ég gæti verið svona hamingjusöm og orkumikil og vinkona mín sagði: „En þú veist, maður sér ekki það slæma á Instagram.

Og það er akkúrat það, maður sér ekki raunveruleikann á Instagram, heldur yfirleitt bara gleðistundirnar.

Þess vegna langaði mig að opna á þetta á mínum miðli, bæði í von um að finna sjálf góðar vinkonur sem eru á svipuðum stað og ég, sem og í von um að hjálpa öðrum mæðrum líka að skapa dýrmæta vináttu.“

Dásamleg, falleg og gríðarlega mikil viðbrögð

Viðbrögðin við færslunni komu Söru sannarlega í opna skjöldu.

„Ég byrjaði færsluna á að skrifa að ég ætlaði að opna fyrir að búa til lítinn sætan mömmuhóp þar sem ég bjóst alls ekki við því að svona margar mæður myndu hafa samband. 

Ég átti meira að segja samtal við mömmu mína þar sem ég sagði við hana að ég væri smá hrædd við að deila þessu því það myndi enginn hafa samband,“ segir Sara kímin og bætir við:

„Áður en ég vissi af fóru skilaboðin að koma inn og það fullt af þeim. Ég gerði mér mjög fljótt grein fyrir því að þetta væri töluvert stærra verkefni en að stofna bara einn lítinn og sætan mömmuhóp. 

Viðbrögðin voru svo dásamleg og falleg og við erum greinilega margar sem höfum einangrað okkur og finnum fyrir þessum einmanaleika.

Ég fékk líka mörg falleg skilaboð og ég er innilega þakklát þeim sem hafa haft samband. Bæði fyrir því að treysta mér að stofna hópana og líka fyrir að hafa þorað að senda mér skilaboð og opna sig um einmanaleikann sem margar upplifa, því það getur verið erfitt skref sérstaklega þegar maður hefur einangrað sig.

Í dag hef ég sett á lista 121 sem hafa svarað og er enn þá að fara í gegnum skilaboðin,“ segir Sara meyr. 

Tvíeggja sverð með samfélagsmiðlana

Aðspurð hvort henni finnist samfélagsmiðlar geta verið öflugt tól til þess að sporna gegn einmanaleika segir Sara:

„Í raun bæði já og nei. Ég finn sjálf að með samfélagsmiðlum er hægt að eignast marga kunningja og eiga í raun samfélagsmiðlavini en í grunninn þrá flestir þessi mannlegu samskipti sem mér finnst hafa orðið erfiðari eftir að samfélagsmiðlar komu.

Hér á árum áður þurfti maður að hafa fyrir því að labba yfir í næsta hús til þess að spjalla eða leika við vinkonur sínar en í dag er svo auðvelt að senda bara skilaboð eða hringja og sleppa því að hittast.“

Sara Líf starfar sem flugfreyja og kláraði BA í lögfræði í vor.Aðsend

Því finnst henni einangrunin orðin meiri en áður. 

„Þar af leiðandi skortir gjarnan þennan mannlega þátt sem felst í því að hitta fólk, tala saman og gera skemmtilega hluti saman án þess að hafa alltaf símana með.

Aftur á móti er hægt að nota samfélagsmiðla sem ákveðið tól til þess að kynnast fólki sem þú myndir ekki hitta í daglegu lífi og halda samskiptum við þá einstaklinga. En við þurfum líka að leggja á okkur vinnuna að hittast og eiga mannleg samskipti án símana,“ segir Sara Líf að lokum.

Hér má nálgast upplýsingar og ráð frá Heilsuveru fyrir þá sem glíma við einmanaleika. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.