Íslenski boltinn

„Ég vona að tjaldið mitt sé enn­þá þarna, það verður gaman í kvöld“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Alex Freyr horfir vongóður yfir í Herjólfsdal og vonar að hvíta tjaldið sé enn á sínum stað.
Alex Freyr horfir vongóður yfir í Herjólfsdal og vonar að hvíta tjaldið sé enn á sínum stað. skjáskot

„Vá, þessi dagur hefur allt“ sagði fyrirliði og hetja ÍBV með hásri röddu. Alex Freyr Hilmarsson skoraði sigurmarkið í 2-1 sigri gegn KR í Þjóðhátíðarleiknum í Vestmannaeyjum.

„Þetta var alveg æðislegt, leikurinn í heild sinni, við vorum góðir í dag og hefðum átt að skora miklu, miklu fleiri mörk.“

Eyjamenn voru minna með boltann í leiknum en óðu engu að síður í færum. Leikplanið var að liggja djúpt og sækja hratt.

„Já og við fengum færin en fórum illa með þau… En miðað við færin sem við fengum hlaut þetta að detta inn undir lokin“ sagði Alex og brosti út í annað, enda datt þetta undir lokin.

Venju samkvæmt fá leikmenn ÍBV frí frá æfingum næstu tvo daga og munu fagna sigrinum að hætti Eyjamanna í Herjólfsdal í kvöld.

„Ég vona að tjaldið mitt sé ennþá þarna, en það verður gaman í kvöld“ sagði Alex að lokum, vonandi að vonskuveðrið í gærkvöldi hafi ekki feykt hvíta tjaldinu hans út á haf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×