Innlent

Stytta opnunar­tíma Seltjarnarneslaugar: „Er þetta það sem við viljum spara í?“

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Í vetur verður opnunartími Seltjarnarneslaugar styttri en verið hefur undanfarin ár.
Í vetur verður opnunartími Seltjarnarneslaugar styttri en verið hefur undanfarin ár. Seltjarnarnesbær

Tilkynnt hefur verið um styttan opnunartíma Sundlaugar Seltjarnarness, sem tekur gildi frá og með 1. september næstkomandi. Nokkurrar óánægju gætir meðal íbúa um þessi áform, eins og venjan er þegar ráðist er í sparnaðaraðgerðir sem fela í sér þjónustuskerðingu af einhverju tagi.

Í tilkynningu Seltjarnarnesbæjar frá síðustu viku segir að frá og með 1. september næstkomandi verði almennur opnunartími sundlaugarinnar færður aftur í það horf sem áður tíðkaðist.

Það felur í sér meðal annars að laugin muni loka klukkan 21 á virkum kvöldum en ekki 22, og um helgar loki hún 18 en ekki 19:30 og opni þar að auki klukkan 9 á morgnana en ekki 8.

Íbúar á Seltjarnarnesi hafa sumir hverjir stigið fram á ritvöllin á Facebook-síðu bæjarins og lýst yfir vonbrigðum.

„Nú rak mig í rogastans þegar ég sá að stytta á opnunartíma sundlaugar til kl 21 á virkum dögum. Ég skil að þetta er sparnaður en finnst þetta mikil skerðing á þjónustu. Hefur einhver mótspyrna verið vegna þessara breytinga?“ spyr einn.

„Mjög grátleg breyting,“ segir ein og „mér finnst þetta hræðilegar fréttir,“ segir önnur.

Annar ritar athugasemd og spyr hvort ekki þurfi að vera til peningar svo hægt sé að hafa opið lengur.

„Er þetta það sem við viljum spara í? Heilsuræktin sem felst í sundi svo ekki sé minnst á heilbrigðuan samkomustað fyrir unga fólkið. Ekkert eðlilega lélegt á tímum lýðheilsuvakningar,“ segir einn íbúi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×