Innlent

Kristinn Örn lést eftir hitaslag á Spáni

Agnar Már Másson skrifar
Kristinn Örn varð 43 ára á mánudag en hann var kallaður Flenni.
Kristinn Örn varð 43 ára á mánudag en hann var kallaður Flenni. Facebook

Kristinn Örn Kristinsson er látinn en hann var lagður inn á sjúkrahús á Spáni vegna hitaslags fyrr í mánuðinum.

Greint var frá því fyrr í vikunni að íslenskur karlmaður hefði fundist um eittleyti að nóttu til aðfaranótt þriðjudags í bænum Novelda. Hann mun þá hafa verið með 42 stiga hita. Viðbragðsaðilar hafi flutt hann á sjúkrahús. Í dag var svo greint frá því að Íslenidgurinn hafi látist.

Systir hans, Anna Björg, greindi frá andláti bróður síns á Facebook á fimmtudag. 

„Hann barðist eins og hann gat en líffærin gáfu eftir og hefur hann loksins fengið frið. Elsku strákur, bróðir, vinur hvíldu í friði,“ skrifar Anna á Facebook. 

Í annarri færslu skrifar Anna Björg að hann hafi verið elskaður af mörgum enda gull af manni.

Mikil hitabylgja hefur verið í suður Evrópu undanfarna daga, sérstaklega á Spáni. Fjölmiðillinn La Vanguardia hefur eftir lögreglu að andlátið sé talið tengjast hitabylgjunni.

Flenni, eins og Kristinn var kallaður, varð 43 ára á mánudag, 11. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×